Innansveitarkronika fjallar um sögu kirkjunnar í Mosfellsdal og afdrif hennar. Eftirtaldir staðir koma þar mikið við sögu.

Hrísbrú

Meira >

Á Hrísbrú, næsta bæ við Mosfell bjó Ólafur Magnússon bóndi ásamt fjölskyldu sinni; Fimmbjörgu konu sinni og sonum þeirra. Kirkjan í Mosfellsdal var fyrst reist á þjóðveldisöld þar sem nú heitir Hrísbrú, en var samkvæmt Innansveitarkroniku flutt að Mosfelli þegar skriða féll á túnið. Fornleifauppgröftur hefur staðið yfir á Hrísbrú frá árinu 1995 og hafa fundist leifar um hina fornu kirkju á svonefndum kirkjuhól.

Mosfell

Meira >

Kirkjuna á Mosfelli mætti kalla aðalpersónu Innansveitarkroniku. Þar átti Egill Skallagrímsson að hafa geymt kistur sínar „sem sagan kallar silfurkistur af einhverskonar feimni en ég held áreiðanlega að hafi verið gullkistur.“ Þar hafa kirkjur verið reistar og rifnar aftur niður í gegnum aldirnar, nú síðast með þeim atburðum sem sagt er frá í Innansveitarkroniku. Í dag stendur þar kirkja sem vígð var árið 1965, teiknuð af Ragnari Emilssyni og byggð fyrir fé sem Stefán Þorláksson ráðstafaði til byggingar kirkju á Mosfelli eftir sinn dag.

Lágafell

Meira >

Á Lágafelli var byggð ný kirkja þegar sú á Mosfelli var rifin. Nýja kirkjan var vígð árið 1889 og þar sátu prestar Mosfellinga í kringum aldamótin 1900. Síðar eignaðist athafnamaðurinn Thor Jensen jörðina og bjó þar síðustu æviárin. Loks keypti Mosfellshreppur jörðina og mikið af þéttbýliskjarna Mosfellsbæjar stendur í fyrrum landi Lágafells.

Hlaðgerðarkot og umhverfi

Meira >

Hlaðgerðarkot sem áður var kallað „mesta örreytiskot Mosfellshrepps“ var samkvæmt Innansveitarkroniku aldrei ætlað sem mannabústaður. Þar er sólarlítið og öll ræktun því erfið. Þegar ríkinu hafði mistekist hrapallega að rækta þar kartöflur eignaðist Stefán Þorláksson landið. Þá uppgötvaðist að þar var heitur lækur sem síðar var notaður til hitaveitu. Stefán hafði af því miklar tekjur sem eftir hans dag hafa runnið til Mosfellskirkju.