Innansveitarkronika á rafrænu formi

Upplestur Halldórs Laxness, rafbók og ítarefni

Halldór Laxness var afkastamikill rithöfundur og spannaði ferill hans næstum alla 20. öldina. Það er því ekki að furða að eftir hann liggja fjölmörg gögn af ýmsum toga; handrit, bréf, minniskompur, upplestrar í útvarp ásamt sjónvarpsefni og svo mætti áfram telja. Ólíkar stofnanir varðveita þessi gögn og í janúar 2013 var haldið málþing um varðveislu þeirra og hvernig mætti auka samvinnu á milli þeirra stofnana sem varðveita þau en á meðal þeirra eru Ríkisútvarpið, Gljúfrasteinn – hús skáldsins og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Innansveitarkronika – hljóð, texti og myndir

Þetta málþing varð kveikjan að samstarfsverkefni um miðlun á arfleifð Halldórs Laxness og var ákveðið að velja Innansveitarkroniku sem tilraunaverkefni. Unnið var að þróun og hugmyndum um framsetningu verksins árið 2014. Gengið var frá leyfum við fjölskyldu Halldórs Laxness, Forlagið, sem fer með höfundarverk skáldsins og við Ríkisútvarpið. Í samstarfi við verkfræði – og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands kom nemi í tölvunarfræði til samstarfs við framkvæmd þessa vefjar sem nú hefur verið opnaður og margir eiga vonandi eftir að njóta.

Þessi vefur markar tímamót því í fyrsta sinn er verki Halldórs Laxness miðlað með þessum hætti. Notendum gefst kostur á að lesa bókina í heild sinni sem rafbók, hlusta á upplestur skáldsins og afla sér fróðleiks um sögusviðið og sögupersónur. Tilgangur hans er einnig að miðla skáldverki eftir Halldór Laxness á nýstárlegri hátt en áður hefur verið gert og varpa ljósi á tengsl verka hans við heimasveit skáldsins, Mosfellssveitina.

Það eru einmitt tengsl skáldsögunnar Innansveitarkroniku (útg. 1970) við Mosfellssveitina og sérstaklega Mosfellsdalinn sem gera hana að góðum kosti fyrir verkefni eins og þetta. Innansveitarkronika er næstsíðasta skáldsaga Halldórs Laxness og hefur lengi vafist fyrir lesendum hvernig hana beri að skilgreina þar sem tengsl við heimasveit skáldsins og fólk sem þar bjó eru rík. Sögusviðið Mosfellsdalinn þekkti Halldór vel, þar ólst hann upp og þar byggði hann sér síðar heimili að Gljúfrasteini. Hann gjörþekkti þetta umhverfi, íbúa þess og sögurnar sem þar höfðu orðið til af fólki og atburðum.

Það er ekki síst vegna náinna tengsla Innansveitarkroniku við svæðið í kringum safnið að Gljúfrasteini sem þessi tiltekna skáldsaga varð fyrir valinu. Í gegnum Innansveitarkroniku má ekki aðeins fræðast um sögusviðið sjálft heldur einnig sögu sveitarinnar, fólkið sem þar bjó og setti svip á samfélagið og Halldór þekkti bæði í gegnum frásagnir annarra og af eigin raun.

Vefurinn um Innansveitarkroniku byggir á samstarfi Gljúfrasteins, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Ríkisútvarpsins, Forlagsins, verkfræði – og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og fjölskyldu Halldórs Laxness.

Gljúfrasteinn ber ábyrgð á verkefninu og hefur starfsfólk unnið að efnisöflun ásamt fleiru. Í verkefnisstjórn störfuðu af hálfu Gljúfrasteins þær Gréta Sigríður Einarsdóttir, Hulda Margrét Rútsdóttir, Guðný Dóra Gestsdóttir og Árni Matthíasson frá stjórn Vinafélags Gljúfrasteins. Ásamt þeim vann Karl Sveinsson nemi í tölvunarfræði á verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands að þróun og hugmyndavinnu. Gezim Haziri sá um forritun og Valur Þorsteinsson sá um hönnun útlits.