Ólafur

Meira >

Hann hafði mjóan vángakraga eins og mun hafa tilheyrt gervi manna uppúr aldamótunum fyrri. Honum lá ekki vel orð til flestra manna, þó talinn óáreitinn, nema átti alla tíð í útistöðum við mosfellspresta útaf ágángi búpeníngs og öðrum ójafnaði sem hann taldi sig verða að þola af prestum þessum og þeir af honum. … Þegar hann fór til kirkju fór hann ævinlega í sparifötin, stutta vaðmálstreyu nokkuð víða, kragalausa og hnepta í hálsmálið, með heimagerðum beintölum og í lokubuxum einsog Napóleon mikli. Aldrei girti Ólafur á Hrísbrú tún sitt, en var þeim mun reiðubúnari með hund og hrossabrest, einkum við búpeníng prestsins. Orðatiltæki: „Þó Egill Skallagrímsson sé ekki nógu mikill dýrlíngur handa ykkur mosfellsanskotum þá er hann nógu góður fyrir okkur á Hrísbrú.”

Bogi og Andrés

Meira >

Synir hans bættust í hópinn, alskeggjaðir og óþekkjanlegir frá samtímamönnum sínum Karli Marx og Bakúnín. Bogi: Bogi þessi var glaðbeittur við alla menn og áreitti aldrei mann eða skepnu svo vitað sé. Hann sá heldur illa, talinn hafa verksjón en ekki lestrarsjón, þekti menn oft ekki í sundur og talaði eins við alla menn, einkum átti hann bágt með að greina sundur únglínga. En við hvern sem hann ræddi fór hann aldrei útí þá sálma sem hann kunni ekki. Andrés: Andrés þótti fyrir þeim hrísbrúarfeðgum og svaraði með mestum skörúngsskap bæði þar á hlaðinu og annarstaðar, enda varð hann sem áður getur fyrstur innborinna mosdæla til að komast í hreppsnefnd í héraðinu. Hann átti meira að segja bækur og fékk fleiri bækur þegar hann varð sextugur. Hann tók oft fram ritið Menn og mentir eftir Pál Eggert Ólason, sem hann fékk í afmælisgjöf frá hrepnum, og lofaði mönnum að vega bókina í höndum sér og finna hvað hún var þúng. Margir öfunduðu hann af að vera í hreppsnefnd. Hann keypti sér skósíðan frakka til að hafa í hreppsnefndinni. Orðatiltæki: Andrés –Þegar hann hafði starfað nokkur ár í nefnd þessari sagði hann: „hreppsnefndin er ekki nein skemtinefnd, allra síst eftir að bæði traffík og konkúrensi er farið að gera vart við sig í héraðinu.”

Séra Jóhann

Meira >

Séra Jóhann fluttist til Reykjavíkur og varð dómkirkjuprestur og þjónaði því aldrei í Lágafellskirkju. Hann gekk í svörtum frakka og gallossíum og var með stórt nef. Hann hafði dimman og hlýjan málróm og talaði ósjálfrátt í einföldum spakmælum. Það var hann sem sagði meðal annars þessi minnisverðu orð: „Góð blöð eru góð ef þau eru góð. Svona spakmæli eru þægileg og meiða engan,“ sagði Halldór Laxness. Séra Jóhann er sagður hafa látið aftur annað augað fyrir guðssástar sakir, þegar hann gaukaði klukkunni að Ólafi á Hrísbrú, eftir að kirkjan hafði verið rifin.  Orðatiltæki: „Því er nú ver og miður að ég á ekki öl einsog Egill var vanur að drekka, en gott kaffi er gott ef það er gott.”

Gunna Stóra

Meira >

Hún var fjallmyndarleg stúlka einsog farið er að segja nú á dögum, hafði átt erfiða bernsku, en snemma farið að úðra onaf fyrir sér og voru rómaðar handatiltektir hennar einkum og sérílagi í mógröfum. Hún var kona mikil vexti og hafði burði á við vaska menn. Hún gekk manna á milli og vann þau forvirki sem ekki voru aðrir fúsir til, og var svo vel skapi farin að allir vildu hafa hana sér nær; en þó hún væri gör í orðum, þá firtist aldrei neinn við tali hennar. … Hún var í raun og veru kapítalisti því hún var aldrei vistráðin en talin lausakona; sá titill hafði ávæning af sérstöðu þó hann væri kanski ímyndaður. Hún var að minstakosti frjáls kona. Orðatiltæki: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.”

Stefán Þorláksson

Meira >

Stefán Þorláksson (1895-1959) ólst upp á Hrísbrú. Hann þekkti söguna um klukkuna og kirkjuna frá blautu barnsbeini og honum var endurreisn Mosfellskirkju mjög hugleikin þótt ekki þætti hann neinn sérstakur trúmaður. Sem fulltíða maður bjó Stefán Þorláksson lengstum í Mosfellsdal, bæði í Reykjahlíð og Reykjadal, hann komst vel í álnir og auðgaðist m.a. á sölu á heitu vatni. Samkvæmt erfðaskrá Stefáns skyldu eigur hans renna til endurreisnar Mosfellskirkju. Hún var vígð árið 1965. „Stefán Þorláksson var einlægt í hnífakaupum, það gerðu hrísbrúarmenn aldrei. Hann eignaðist allrahanda hnífa, byrjaði á því að skifta slétt en fór svo að reyna að fá stóran hníf fyrir lítinn eða tvo fyrir einn.” „Honum var gefið trippi og hann beið einn vetur eftir að úr því yrði hestur. Um haustið fór hann í Kollafjarðarrétt að draga fé hrísbrúarmanna því hann var sjónskarpur á eyrnamörk. Þegar hann kom heim um kvöldið hafði hann að vísu látið hest sinn, en kom með þrjú hross í staðinn, stóðmeri og folald sem undir henni gekk, auk þess fullorðinn áburðarhest. “ Orðatiltæki: „Kaupa, kaupa sama hvað kostar.”

Fimmbjörg

Meira >

Einginn þekti hana, vegfarendur höfðu aldrei séð hana, sumir drógu af líkum að slík kona væri ekki til. Innansveitarmenn höfðu þó margir séð hana fyr á árum þegar hún gekk um hús sín, stilt í orðfæri en tók á öllu af röggsemi, samt með nokkrum hætti gestur heimahjá sjálfri sér, enda ættuð að norðan; þjóðskáldið á Bæsá sem þýddi Milton og Klopstock ku hafa verið ömmubróðir hennar. … Dag nokkurn um það bil sem börn hennar voru vel komin á legg lagðist hún í kör og reis ekki upp síðan; en kör hefur verið ein mikilsverðust þjóðfélagsstofnun á Íslandi frá því að land bygðist. Það var sagt að konan væri búin að liggja átján ár í körinni. (1970, bls. 31-32) Orðatiltæki: „Ég er einlægt að vona og biðja að ég fái að fara að fara. Þetta er farið að dragast nokkuð leingi þykir mér. Það er ekki leingur hald í mér. Ég er laungu hætt að kannast við sjálfa mig. Lítið var, lokið er.”