Stefán Þorláksson

Reykjavík, síðar Hrísbrú

Fyrirmynd: Stefán Þorláksson

Stefán Þorláksson (1895-1959) ólst upp á Hrísbrú. Hann þekkti söguna um klukkuna og kirkjuna frá blautu barnsbeini og honum var endurreisn Mosfellskirkju mjög hugleikin þótt ekki þætti hann neinn sérstakur trúmaður. Sem fulltíða maður bjó Stefán Þorláksson lengstum í Mosfellsdal, bæði í Reykjahlíð og Reykjadal, hann komst vel í álnir og auðgaðist m.a. á sölu á heitu vatni. Samkvæmt erfðaskrá Stefáns skyldu eigur hans renna til endurreisnar Mosfellskirkju. Hún var vígð árið 1965. „Stefán Þorláksson var einlægt í hnífakaupum, það gerðu hrísbrúarmenn aldrei. Hann eignaðist allrahanda hnífa, byrjaði á því að skifta slétt en fór svo að reyna að fá stóran hníf fyrir lítinn eða tvo fyrir einn.” „Honum var gefið trippi og hann beið einn vetur eftir að úr því yrði hestur. Um haustið fór hann í Kollafjarðarrétt að draga fé hrísbrúarmanna því hann var sjónskarpur á eyrnamörk. Þegar hann kom heim um kvöldið hafði hann að vísu látið hest sinn, en kom með þrjú hross í staðinn, stóðmeri og folald sem undir henni gekk, auk þess fullorðinn áburðarhest. “ Orðatiltæki: „Kaupa, kaupa sama hvað kostar.”