SJÖUNDI KAPÍTULI Upphaf kirkjustríðs
Þessi tíðindi gerðust sem fyr segir á túnaslætti snemma meðan björt er nótt. Veður voru gæskufull með fögrum þerrum, en heldur þurt í rót á daginn og ofsamenn við heyslátt voru komnir ofan fyrir allar aldir að berja tún sín meðan enn var blautt á af áfalli. Það verður einn morgun á þessari tíð jöfnu báðu óttu og miðmorguns að uppgángandi sólu, þá er fast knúið dyra á prestssetri að Mosfelli. Prestur og fólk hans var þá í værum svefni. Guð sé með þér, hver er maðurinn? kallar séra Jóhann út í svefnrofunum eftir landssið. Það eru strákar, var svarað eftir sama landssið utanaf hlaði. Nú er að rísa úr bosinu og verja hendur sínar. Að því er segir í bréfköflum sem séra Jóhann skrifaði séra Þórarinum í Görðum prófasti sínum og prentaðir voru í útdrætti dagblaðs laungu síðar, fór þessi heimsókn fram sem nú segir: Á hlaðinu stendur Ólafur bóndi Magnússon á Hrísbrú með orf sitt reitt um öxl og veit ljásoddurinn beint upp. Enn er gras á ljánum og bendir til að sláttumaður sé kominn rakleiðis úr teignum. Hann stíngur niður orfhalanum í völlinn svipað og talið er að Gunnar hafi atgeir sínum á Hlíðarenda þeim stundum er hann hóf hann eigi á loft. Nokkru utar á hlaðinu og nær sáluhliði stendur Bogi sonur hans sem gerst hafði skjaldsveinn föður síns í þessari för og hafði hrífu í hendi heyuga um tindana, því hann hafði verið að raka ljá eftir föður sinn í túninu þegar báðir feingu æðra kall. Þegar séra Jóhann er kominn fram í húsdyr lýkur Ólafur bóndi munni sundur á hlaðinu og ávarpar prestinn svo: Er það satt að þú ætlir að brjóta niður Mosfellskirkju Jóhann anskoti? Ekki held ég það sé nú öldúngis rétt Ólafur minn, svarar séra Jóhann, en hitt er satt, konúngur og alþíngi hafa fyrirskipað sameiníngu kirkna hér í sveitinni, og því máli fylgir landshöfðíngi biskup og allir prófastarnir, og reyndar flestir skynsamir bændur í héraðinu. Er þetta kanski ekki kirkja Egils Skallagrímssonar og var kanski ekki hausnum af Agli stolið frá okkur hrísbrúíngum í upphafinu? spyr Ólafur bóndi. Séra Jóhann svarar að því miður vitum við ekki leingur hver sá dýrlíngur var sem Mosfellskirkja var vígð í upphafi. Ólafur segir: Þó Egill Skallagrímsson sé ekki nógu mikill dýrlíngur handa ykkur mosfellsanskotum þá er hann nógu góður fyrir okkur á Hrísbrú. Og þó þið hafið stolið kirkjunni frá okkur þá teljum við okkur eiga svo mikið í henni að við látum aldrei yfir okkur gánga að þessi kirkja verði rifin. Við erum híngað komnir úr teignum á Hrísbrú af því við þolum ekki leingur að búa undir kúgun. Segðu þessum anskotum það. Hér skal verða barist. Blóð skal mæta blóði. Séra Jóhann svarar svo: Það er gott og fagurt að berjast fyrir góðu málefni Ólafur minn, einkum ef maður hefur snúið sér til himnaföðurins og beðið hann að ljá sér þann rétta skilníng og þau réttu vopn. Ég er búinn að fara til klénsmiðs, mælti þá Ólafur á Hrísbrú, en þessir ræflar eru svo úrættaðir að þeir kunna ekki leingur að smíða sverð. Og hverjir ætla sosum að fara að berjast með sverðum núna Ólafur minn, spyr sera Jóhann. Ólafur svarar: Til er ég og til er Bogi. Ja það er nú það Ólafur minn, segir séra Jóhann. Mér dettur í hug hvort ég ætti ekki að vekja hana Gunnu þó í fyrra lagi sé og biðja hana að snerpa á könnunni. Þá segir Ólafur: Heldur þú og þið anskotar að Egill Skallagrímsson frændi minn hafi farið að drekka kaffi þegar hann var í vígahug? Því er nú ver og miður að ég á ekki öl einsog Egill var vanur að drekka, segir séra Jóhann. En gott kaffi er gott ef það er gott. Síðan biður séra Jóhann gesti sína að doka við andartak og hvarf inní húsið. Að svipstundu liðinni kemur únglíngsstúlka vinnukona prestsins frammí dyrnar, Guðrún að nafni Jónsdóttir, nokkuð fáklædd, og spyr hvort gestirnir vilji ekki hunskast inní eldhús og drekka nærbuxnaskólp hjá sér. Guðrún þessi Jónsdóttir, óskilgetin en sögð komin útaf Stephensenum, var þá um tvítugt og þótti rör manneskja í sveit sinni svo á únga aldri sem og æ síðar. Nú skal sagt til bráðabirgða frá þessari stúlku. Hún var fjallmyndarleg stúlka einsog farið er að segja nú á dögum, hafði átt erfiða bernsku, en snemma farið að úðra onaf fyrir sér og voru rómaðar handatiltektir hennar einkum og sérílagi í mógröfum. Hún var kona mikil vexti og hafði burði á við vaska menn. Hún gekk manna á milli og vann þau forvirki sem ekki voru aðrir fúsir til, og var svo vel skapi farin að allir vildu hafa hana sér nær; en þó hún væri gör í orðum þá firtist aldrei neinn við tali hennar. Fleira um þetta tal þegar þarað kemur. Guðrún Jónsdóttir lifði og starfaði lánga ævi í þessari sveit án þess hún tæki kaup fyrir verk sín það menn vissu, og átti ævilángt ekki nema tvenn föt, önnur hvunndags, hin til kirkju, einsog kristmúnkar. Hún prjónaði sér sokka og þríhyrnur úr ullinni af nokkrum ám sem hún átti en var í boldángsstakki utanyfir og batt á sig höfuðsjal; kirkjupilsið var úr vaðmáli sem var litað svart, en klæðispeysan hennar var fín, þó man ég ekki til að hafa séð konuna með slifsi, sem annars var skyldugt við slíkar peysur. Einstöku húsbændur gáfu henni lamb og hún heyaði handa þeim sjálf og kom þeim fyrir á bæum þar sem hún átti innhlaup. Þegar fram liðu stundir eignaðist hún rauða meri. Hún var í raun og veru kapítalisti því hún var aldrei vistráðin en talin lausakona; sá titill hafði ávæníng af sérstöðu þó hann væri kanski ímyndaður. Hún var að minstakosti frjáls kona. Fleira um konu þessa bráðum. Hvað eruð þið að vafra með orfstautana ykkar uppí dyragættum hjá fólki um miðjar nætur skepnurnar mínar, sagðist Guðrún Jónsdóttir hafa sagt við þá þegar hún var spurð um þessa heimsókn laungu síðar. Gestirnir voru nú sestir í eldhúsinu og farnir að bíða eftir kaffinu. Við erum að hugsa um að útvega þér mann, segir Ólafur karlinn þá. O hvaða mannskræfa er nú það garmurinn minn, segist Guðrún Jónsdóttir hafa sagt. Hvaða karlmannsmynd ætli fari að eiga svona belg einsog hana Gunnu stóru. Ja sosum einsog hann Bogi litli þarna, segir Ólafur. O það ætti nú að vera óþarfi að koma með ljá til þess, segir Gunna. Ég er nú bara með hrífu, segir Bogi. Ljánum hans föður míns var ekki heldur stefnt að þér Gunna mín. Hafðu sæll sagt það, aumínginn minn, þú skalt fá aftur í bollann, segir Gunna. Ólafur: Það dugir ekki annað en hafa þessa anskota undir aga. Mér hefur altént gefist það best við mosfellspresta. Anskota hætið þú hefur af þeim nema þeir séu hræddir. Ég fann þeir voru ósköp fegnir að fá kaffi sneypurnar þær arna, sagði Guðrún Jónsdóttir laungu síðar þegar hún var int frétta af þessum atburðum. Þeir sötruðu uppúr einum tveim spilkomum af þessu sulli mínu og það snörlaði í þeim. Ekki þökkuðu þeir þó fyrir sig á eftir né báðu að heilsa í bæinn. Þeir sögðust verða að halda á með að slá túnið meðan rakt væri í rót, kindaskammirnar. Guðrún Jónsdóttir fylgdi þeim til dyra. Hún spurði: Hafið þið nú ekki gleymt neinu greyin mín. Þeir önsuðu ekki. Orfið stóð með ummerkjum í vellinum og ljárinn uppi, þegar þeir komu frá kaffinu. Ólafur kipti því upp og reiddi það um öxl, en að þessu sinni var ljásoddurinn niður. Síðan sneru þeir heimleiðis, Ólafur gekk fyrir með ljáinn, Bogi í humátt á eftir með hrífuna sína; hurfu fyrir bæarhólinn oní gilið.