ÁTTUNDI KAPÍTULI Guðfræðileg skemtiför
Þennan sama morgun uppúr venjulegri fótaferð héraðsins reið séra Jóhann á stað að safna undirskriftum um sameiníng kirkna. Hann hafði sammælst við sóknarnefndarformann sinn Kolbein í Kollafirði. Séra Jóhann talaði seint og var nokkuð dimmraddaður einsog rödd úr djúpinu, en Kolbeinn í Kollafirði hafði á hraðbergi kátlegar smásögur og hlóu menn að, allir nema séra Jóhann. Verður nú sem títt er þegar slíkir öðlíngar fara á fjörurnar við menn að fátt verður um andsvör hjá sveitúngum og eru flestir þess sinnis að greiða erindi þeirra. Séra Jóhann taldi um fyrir mönnum og sagðist vera orðinn þreyttur að sitja kóngsjörð einsog Mosfellið með skyldum kvöðum og öðru ónæði sem því fylgir að vera brauðbítur yfirvaldanna; kvaðst nú hafa fest kaup á Lágafellinu þar sem kirkju átti að reisa eftir vilja konúngs alþíngis landshöfðíngja og biskups og vonandi einnig drottins sjálfs auk skynsamra manna í þessu bygðarlagi. Séra Jóhann sagðist ekki mundu fara frammá hærra lóðargjald fyrir nýju kirkjuna á Lágafelli en 2 krónur af hverjum bónda og ábyrgjast legupláss handa allri sveitinni þar í nýum kirkjugarði fyrir 4 krónur. Bændur spurðu hvort sú leiga ætti að gilda að eilífu og svaraði séra Jóhann því til að þessi leigumáli færi eftir taxta sem settur væri af biskupi og hefði verið viðurkendur í Kaupmannahöfn. Margir sögðust heldur vilja láta grafa sig ókeypis að Mosfelli. Séra Jóhann sagði að guð mundi ekki vera fjær söfnuði sínum á Lágafelli þar sem legupláss var ótakmarkað en á Mosfelli sem hafði bara lítinn hól. Bændur í Mosfellshreppi höfðu sjálfir orðið að bera viðhald kirkna sinna á Mosfelli og í Gufunesi og borga auk þess 2 krónur á ári fyrir kirkjugrunn á Mosfelli sem náði ekki nokkurri átt, og 4 krónur á ári handa kirkjugarðshaldaranum; alls 6 krónur á ári á Mosfelli hjá 6 krónum um aldur og ævi á Lágafelli. Má segja að þegar maður er kominn að Lágafelli sé orðið ódýrt að vera í himnaríki, sagði séra Jóhann að endíngu. Einn bóndi spurði þá: er nú öldúngis víst að við förum til guðs þegar þessu er lokið hér? Séra Jóhann kvað svo vera. Þeir gátu haft til að spyrja: og af hverju förum við til guðs? Höfum við unnið til þess? Og hvað höfum við að vilja þángað heillin mín? Við komum þaðan í upphafinu, sagði séra Jóhann. Við eigum þar heima. Til stuðníngs hugmyndinni sagði Kolbeinn í Kollafirði af konu nokkurri sem fór með Jón bónda sinn í poka upp til himnaríkis. Pétur sagðist ekki vilja Jón þenna og ætlaði að skella hurðinni á konuna. Þá stakk konan fæti milli stafs og hurðar en endasendi pokann innum gættina með því að setja duglega í hann hinn fótinn svo hann flaug lángt inní himnaríki. Varð Pétur að sitja uppi með kallinn. Bóndinn í Leirvogstúngu segir þá, mér skilst, laxmaður, að þessi kona hafi haft þrjá fætur, einn sem hún stóð í, annan sem hún stakk milli stafs og hurðar og þann þriðja sem hún hafði til að sparka pokanum inní himnaríki. Spurníng: Eiga þeir líka að borga 6 krónur sem fara til helvítis? Við vitum ekki mart, sagði séra Jóhann. Í rauninni vitum við ekki nema eitt. Við tilheyrum guði og eigum heima hjá honum. En það er opið báðar leiðir. Þá var spurt: Getið þið prestar ekki nokkurnegin séð þá menn út fyrirfram sem fara til helvítis? Ef við sem förum til himnaríkis eigum að borga 6 krónur í legkaup alla eilífð fyrir þá sem fara hina leiðina þá er það snuðirí þó í litlu sé. Við prestarnir erum nú fæstir svo gáfaðir að við sjáum með vissu hverjir eru mátulega feitir og hverjir ekki, hvað þá við sjáum það sem meira er, segir séra Jóhann. Það er mikilsvirði að vera mátulega feitur, og ekki heldur of horaður. Afgánginn felum við alviskunni. Þetta var lagt þannig út að þeir horuðu mundu fara neðri veginn af því þeim hætti við að fara í hart við guð og menn vegna sultar, og þeir feitu sömu leið því þeir hefðu orðið feitir af að þurnytka hús ekkna og munaðarlausra. En það gat líka þýtt þveröfugt. Kolbeinn í Kollafirði segir þá eftirfarandi sögu: Einusinni voru tveir feðgar að tæa hrosshár. Þá segir pilturinn uppúr eins manns hljóði: er það satt pápi minn að lausnarinn hafi stigið niður til helvítis? Ég veit það ekki, segir karlinn. Prestarnir eru eitthvað að segja það. Viskum ekki gefa um það. Viskum vera að tátla hrosshárið okkar. Árángurinn af þessum undirskriftaleiðángri, sem var fullur af guðfræðilegri skemtun allan daginn og lángt frammá kvöld, varð vitaskuld sá, þarsem tveir öðlíngar áttu í hlut annars vegar, að allir menn skrifuðu undir það sem þeir höfðu ýmist þumbast við eða greitt atkvæði gegn fyrir nokkrum dögum. Einstöku maður skrifaði undir með þeim fyrirvara að sameiníng kirkna mundi vonandi ekki verða fyren eftir nokkur ár þegar þeir menn væru dauðir sem nú lifa, og sögðust setja hér nafn sitt í þeirri vísavon að brátt færi að líða að þessu. En hvorttveggja var að allir vissu nú að kirkja þeirra stóð höllum fæti gagnvart vilja guðs og manna og hvorki orð né eiðar máttu sín gegn sköpum sem ofangreindri kirkju voru búin. Það mýkti hörku örlagadóms að heyra á fortölur góðra manna í málinu og þurfa ekki að hlýða valdboði; hitt var meira vafamál hvort sá var nokkur er þar léði nafn sitt undir af rökum skynseminnar. Kolbeinn í Kollafirði hefur lýst í bréfi heimför sinni þetta kvöld er þeir séra Jóhann höfðu kvaðst eftir afrek dagsins: ég reið sem leið liggur yfir Skriðuna um kvöldið og um á Hrísbrú, skrifar hann. Hrísbrúíngar stóðu á hlaðstéttinni og voru að dytta að amboðum. Jæa, segi ég, nú er betra að fara að skrifa nafnið sitt Ólafur minn. Það eru allir komnir á blað. Ólafur segir: ég hef aldrei skrifað, skrifa ekki og mun aldrei skrifa. Minn haus liggur á Mosfelli, það er haus Egils Skallagrímssonar sem mosfellsprestar stálu. Sá haus skal aldrei brotna. Og hvað heldur þú Bogi minn, heldurðu að þú skrifir ekki? spyr Kolbeinn sóknarformaður. Bogi svarar: Ég teymi undir honum föður mínum ef hann skyldi þurfa að skreppa á bæi.