SJÖTTI KAPÍTULI Yfirvöld rumska
Frá því er að segja að lángt var nú liðið síðan sá boðskapur var útgefinn af konúngi að Mosfellskirkja skyldi hverfa. Í þann tíð var lagt fyrir landsmenn að slá kirkjum saman í sparnaðarskyni um alt Ísland. Nú háttaði svo til, og hafði gert leingi, að tvær voru kirkjur í Mosfellshreppi sín á hvorum bygðarenda, þessi í Mosfellsdal upp undir heiði, hin að Gufunesi í Sundum, út við sjó. Miðsveitis í Mosfellssveit fyrirfanst eingin kirkja síðan í kaþólsku að bænhús lögðust af að Suður-Reykjum og Varmá. Kjalarnes innan Kleifa átti kirkjusókn að Mosfelli en prófastdæmið hét Kjalarnesþíng eftir fornri héraðaskiftíngu. Kirkjustjórn landsins svo og prófastar Kjalarnessþíngs höfðu leingi hummað frammaf sér samfærslur og aðrar forfæríngar kirkna hérumslóðir, þó slíkt væri talið gagnlegt landsins kassa. Virtist svo sem menn tækju sáluhjálp sína frammyfir þennan kassa og brugðust með tómlæti og undandrætti við hugviti danakonúngs í kirkjusmíðum á svipaðan hátt og ýmsu öðru hugviti hans, þó oft færi svo að kóngur bar sigur úr býtum um það er lauk. Nú höfðu menn á síðastliðnum 300 árum sætt sig við trú þá sem danakonúngur hafði boðað hér, og leiddi af henni að kóngur gerði íslandsbiskup vikadreing sinn en prófastarnir urðu goskarlar hjá stjórninni, þó misdyggir. En þó lúterstrú væri þess ekki umkomin að svara því, hverjum dýrlíngi Mosfellskirkja var vígð, né sýna mönnum þó ekki væri nema engilskjátu á rölti, og hversu mikil sem varð eymd prestanna bæði til lífs og sálar, þá þoldu ekki bændur þessir að fjarlægur konúngur útlendur væri að hrugga við kirkjum hér uppá Íslandi, og var talað að mosdælir stæðu allir sem einn með því að hafa guð kjuran á sínum stað þar sem hann átti heima, en það var í Mosfellskirkju þar sem höfuð Egils Skallagrímssonar býr. Á þeim rúmum hundrað árum síðan sá boðskapur útgekk úr Danmörku að Mosfellskirkja skyldi brotin hafði stundum verið heldur dauft í sveitum og orkaði landstjórnin að sínu leyti ekki að tína upp alla smáa kirkjustaði sem danir vildu feiga, en létu við það sitja að brjóta niður Skálholtsstað, sem þá var kallaður höfuðstaður landsins, svo og Hóla í Hjaltadal fyrir norðan. Smádillur uppá hólunum einsog Mosfellskirkja urðu að mæta afgángi. Auk þess varð á þessum hundrað árum að gefa rúm móðuharðindunum, Napóleoni mikla, Jörundi hundadagakonúngi, kúrantmynt og kláða í fé. En er líða tók á nítjándu öld voru menn farnir að taka svo við sér að konúngsúrskurður frá 1774 var enn tekinn á dagskrá, að þessu sinni á alþíngi, og kom í ljós að úrskurður þessi hafði að vísu ekki komið til framkvæmda; þó eigi verið úr gildi numinn. Þar kemur sögu að alþíngi í Reykjavík samþykkir 12ta maí 1882 að til þess að létta nú einusinni enn á landssjóði, skuli gerður reki að samfærslu tveggja kirkna í Kjalarnesþíngi, Gufunesi og Mosfelli, að því tilskildu að 2/3 hlutar safnaðanna gjaldi þartil jákvæði sitt. Á kirkjufundi Kjalarnesþíngs sem haldinn var í Prestaskólanum í Reykjavík 11ta janúar 1884 samþyktu fundarmenn sem þar voru í fyrirsvari, prófastur prestar og sóknarformenn, að nú skyldi láta til skarar skríða um kirkjumál mosfellínga. Talaði þar einginn í móti. Séra Jóhann Þorkelsson sat þá að Mosfelli. Hann taldi sig ekki hafa orðið varan við neikvæðar undirtektir sóknarmanna sinna um samfærslu kirkna; en bætti þó við að dalabændur á Íslandi væru hummgefnir menn að eðlisfari og ekki altént hægðarleikur að heyra oní þá, því síður hafa mikið uppúr þeim. Mundi hugur þeirra í málinu væntanlega skýrast á fundi þar sem tilskilin atkvæðagreiðsla færi fram. Eftir héraðsþíng kirkjuyfirvalda var efnt til fundar þess heima í sveit þar sem sóknarbændur skyldu greiða atkvæði í málinu. En í þessum konúnglega draumi sem hafði staðið síðan 1774 voru einlægt að hlaupa snurður á þráðinn. Þó kom svo fyrir stöðuga ýtni af hálfu prófasts í Kjalarnesþíngi, Þórarins þess sem samdi Þórarinsbókina, að saman náðust 15 menn af 25 sóknarbændum Mosfellskirkju í stofunni á prestssetrinu árið 1886. Hinn frægi prófastur sem með bók sinni hafði mentað alþýðu landsins brýndi nú fyrir bændum þessum af lærdómi og málsnild nauðsyn sem kirkjustjórninni og landsyfirvöldunum þótti til bera að kirkjum yrði slegið saman og harmaði deyfð sem ríkt hafði í héraðinu á annað hundrað ára í því að taka undir þóknanlegan vilja yfirvaldanna í þessu máli. Sumir tóku í nefið, aðrir snýttu sér eða hræktu og nokkrir klóruðu sér. En einginn lét toga túngu úr höfði sér um þetta mál. Þá var geingið til atkvæðagreiðslu um málið. Fyrst var borin undir atkvæði tillaga þess efnis að hver sem ekki léti í ljós vilja sinn með eða móti skyldi teljast samþykkur sameiníngu kirkna í Mosfellssveit. Um þessa tillögu greiddu þrír eða fjórir menn atkvæði, einginn á móti. Í atkvæðagreiðslu um málefnið sjálft sem á eftir fylgdi, guldu sex menn jákvæði sitt en þrír voru á móti. Sex þögðu. Þetta var dauf þáttaka og borin von að hún svaraði kröfum alþíngis um meirihluta, svo samfærsla kirkna yrði lögleg. Fundurinn var leystur upp á þeim forsendum að fundarsókn væri ónóg og vilji þessara fáu óráðinn. Prófastur segir að nú sé ekki annars kostur en leita atkvæða sóknarmanna skriflega utan fundar. Var séra Jóhanni á Mosfelli ásamt formanni sóknarnefndar Mosfellskirkju Kolbeini bónda í Kollafirði falið að hafa forgaungu um að safna undirskriftum sóknarmanna varðandi sameiníng kirkna í Mosfellshreppi og hvetja þá til að segja hug sinn með eða móti, hvort Mosfellskirkja skyldi rifin.