TUTTUGASTI OG ANNAR KAPÍTULI Mosfellskirkja stígur niður aftur
Þegar Stefán Þorláksson var orðinn hreppstjóri í Mosfellssveit og sestur í hverabú sitt í dalnum, þá gnæfði hann svo hátt yfir aðra menn í sveit þessari, að ekki höfðu aðrir gert betur síðan Egill Skallagrímsson gróf þar í fúakeldum kistur sínar góðar sem sagan kallar silfurkistur af einhverskonar feimni en ég held áreiðanlega að hafi verið gullkistur. Stefi ræktaði á jörð sinni tómata rósir og kýr og safnaði að sér á undan öðrum mönnum öllum þeim maskínum sem hann gat haft uppá og margur mundi segja að gerðu lífið bæði auðvelt og óvandað, en hafa það sameiginlegt að ekki þarf nema styðja á hnapp, þá gera þær alt sjálfar; þúsund og aftur þúsund hestöfl. Kæliskápar voru ekki aðeins í stofu eldhúsi og bar, heldur einnig í svefnherberginu. Sömuleiðis var úr svefnherberginu innangeingt í sal sem stóð fullur af bifreiðum. Á hlaðinu biðu vörubílar með miklum fjölda hjóla, fjallabifreiðar og önnur appíröt á beltum, dráttarvélar grafvélar jarðýtur og snjómokstursvélar og þar fram eftir götunum. Stefán var vel stóðeigandi og þótti gaman að gefa fólki hesta í vináttuskyni. Hann var slíkur hreppstjóri að leingi verður að fletta í Hreppstjóraævum til að finna annan slíkan. Ef hann frétti að einhverstaðar var fent í traðir hjá bónda var hann þar kominn með snjóýtuna. Ef einhver bóndi var svo drukkinn allan veturinn að hann gleymdi að bera á túnið hjá sér, þá kom Stefán með penínga handa honum um sumarmálin svo hann gæti keypt fyrir þá skít. Ráðskonur sínar vildi Stefán reyndar ekki eiga, afturámóti gaf hann þeim stundum íbúð og stundum mann þegar þær fóru úr vistinni. Gildum húsfreyum gaf hann saumavélar og laglegum stúlkum hross. Varla var svo lítilfjöggleg kvenpersóna í sveitinni, úng né gömul, að hann væri ekki þar kominn með tvöfaldan rósavönd ef hún átti afmæli. Fyrir bragðið var hann gerður heiðursfélagi í kvenfélaginu. Hann hafði það til að kaupa léleg fjallakot sem leingi höfðu verið í eyði og byggja þar höfuðból og seldi síðan með tapi, ellegar gaf óvensluðu fólki, stundum með allri áhöfn svo það gæti búið við rausn þángaðtil það færi á hausinn. Hann átti skemmur fullar af alskonar vöru, einsog myndarleg heildverslun, til taks ef á þyrfti að halda handa sjálfum honum eða öðrum. „Kaupa kaupa, sama hvað kostar“ var hans einkunnarorð. Stundum voru mönnum kaup hans ráðgáta, ekki síst þegar hann keypti fjölda eintaka af hlut sem flestum þótti lítill pardómur í. Ævinlega fór svo á endanum að jafnvel hinir óhnýsilegustu hlutir margfölduðust að verði í vörslum hans og sannaðist oft hjá honum sú kenníng sumra hagfræðínga að allir hlutir hafi verið að hækka í verði síðan á dögum Rómaveldis. Sem dæmi um þetta má nefna það er hann tók til að koma sér upp bókasafni, en hafði verið heldur lítill bókamaður áður. Það var í þann tíð er út var komið á prenti hið mikla ritverk séra Jóns Þorgeirssonar í Vassdalshólum, Ævisögur merkra hrossa í Húnavassýslu. Af þessari bók seldist því miður ekki eintak í landinu þá er hún kom út og þar við sat um margra ára skeið. Stefán Þorláksson las bókina og líkaði vel, því hann var hestamaður. Til að sýna hug sinn gagnvart bókmentum keypti hann 300 eintök af þessari bók og lét upp í hillur í bókaherbergi sem hann innréttaði sér í þessu skyni. Þetta spurðist víða og stuðlaði að því að margir vildu eignast bókina, en þá kom uppúr dúrnum að mestum hluta upplagsins hafði verið brent en Stefán keypt afgánginn; var nú svo komið að alger skortur var orðinn á bókinni í landinu. Seinast var bókin komin í álíka verð og Skrauthólaútgáfan af Nýatestamentinu og fóru svo leikar að þetta bókasafn Stefáns seldist fyrir ofvirði að honum látnum. Svipuðu máli gegndi um kaup hans á Svartadauða. Það var á fyrstu dögum ríkisbrennivíns á Íslandi. Þá var fyndni ekki aldauða á Íslandi og ríkiseinokun sú sem þá var sett í landinu til að selja brennivín, og stjórnað af gútemplarareglunni, fann upp það snjallræði að gefa út af sér vökva sem þeir kölluðu fyrst Pláguna miklu en síðar gekk undir nafninu Svartidauði. Þetta þótti hörkugott brennivín. Nafn vökvans var prentað með hvítu letri á biksvartan vörumiða, og undir nafninu tveir lærleggir í kross auk hauskúpu, einnig prentað með hvítu. Þetta er sumsé hin síðasta fyndni í stórum sniðum sem íslendingum hefur dottið í hug, eða einsog einn góður maður sagði, það var hægt að hlæa að henni með öllum kjaftinum. En sá dofi í heilabúi þjóðarinnar sem er böl nútímans var þá farinn að grafa um sig og ekki leið á laungu áður en þessum vörumiða var breytt af þeim feimnum andlausum kontóristum utanaf landi, sem þá voru byrjaðir að smjúga inní valdakerfið. Þeir létu taka svartadauðamiðann með hauskúpunni burt og settu náttúrulausa blómalitmynd úr Jurtafræðinni utaná brennivínið af því þannig héldu þeir það mundi seljast betur. Stefán Þorláksson var ævinlega fyrstur maður til að skilja fyndni. Einmitt á þeim stutta tíma sem Svartidauði með hauskúpu og lærleggjum var á brennivíninu, þá sætti hann lagi og kom sér upp ekki óálitlegum kjallara af þessum drykk að eiga sér til skemtunar og jafnvel gefa vinum sínum í bollabrotinu á góðri stund, þó sjálfur drykki hann reyndar ekki brennivín. Innan skamms var íslenskur Svartidauði með hinum svarta miða orðinn frægur um allan heim og er enn, svo að víða í löndum er þessi íslenska vörutegund hið eina sem menn vita eða vilja vita um Ísland. Nú bjóða amríkumenn 100 dollara í einn svona miða utanaf gamalli íslenskri brennivínsflösku. Nema einhvernegin hefur það snemma lagst í Stefán að þarna væri góð fjárfestíng. Ekki aðeins þessi miði, svo snildarlega hugsaður, hefur orðið verðmætari en nokkur annar miði af sömu stærð á Íslandi, heldur hefur nafnverð sjálfs brennivínsins hækkað úr kr. 6,75, en það kostaði flaskan þegar Stefán keypti birgðir sínar, og uppí rúmlega 400 krónur núna. Um það er lauk reyndist Svartidauði Stefáns jafnvel enn drýgra búsílag en Ævisögur hrossa eftir séra Jón í Vassdalshólum og jafnvel ástasögur Guðrúnar Trekkvindsdóttur sem hér verður þó ekki getið nánar; það kom í ljós þann dag sem dánarbú Stefáns Þorlákssonar var gert upp. Einkunnarorð Stefáns „kaupa kaupa, sama hvað kostar“ stóðst einsog fyrri daginn og svo sú kenníng að alt hafi verið að hækka í verði síðan á dögum Caligúlu. Þessi dæmi um framsýni í fébrögðum, speglasjónir einsog vant er að segja í Mosfellssveit, eru ekki rakin hér til að sanna ágæti Stefáns Þorlákssonar né afsanna; látum slíkt liggja milli hluta. En þegar erfðaskrá hans var lesin að honum látnum voru bæði Svartidauði og hrossabók séra Jóns talin kyrfilega meðal pósta þeirra er af þeim samanstóðu eignir hans. Þegar hér er komið sögu get ég ekki stilt mig um að ítreka það sem fyr var sagt, að einginn vissi til þess hér í sveit að Stefán Þorláksson hefði nokkru sinni farið með gott orð í lifanda lífi; prestur nokkur hefur sagt við undirritaðan að Stefán þessi muni hafa verið álíka trúlaus og Konstantín mikli sem þó sannanlega bjargaði kristindóminum. Að minstakosti mundi enn sem komið er teljast ofílagt að reikna hann með trúarhetjum í Mosfellssveit. Samt varð hann styrkari stoð sönnum kristindómi í sveit þessari, mælt í krónum og aurum, en flestir helgir menn vorir urðu hvort heldur með þöglum bænahöldum eða háværum sálmasaung eða laungum prédikunum. Stefán Þorláksson mælti sumsé svo fyrir í erfðaskrá sinni að fjármunir meiren litlir er hann leifði skyldu gánga til þess að reisa kirkju mikla og góða að Mosfelli í Mosfellsdal, þar á rústum fornra kirkna sem geyma höfuð Egils Skallagrímssonar.