TUTTUGASTI OG FYRSTI KAPÍTULI Hér segir af gulli og heitu vatni
Þjóðbrautin er ekki einlægt eins slétt og fyrstu hnífakaup æskunnar; hornsílin í tunnunni hjá Öskuláka vildu enn ekki verða að hákalli. Þó ekki skorti transaxjónir hjá Stefa, og þó hann eignaðist smámsaman hraðskreiðari bifreið en þá sem var þrjá sólarhrínga til Þíngvalla, þá vildi þetta verða hjakk í sama farinu. Hverjir höfðu efni á að taka sér leigubíl í þá daga? Að minstakosti ekki ráðsettir menn af því tagi sem áttu sannanlega fyrir bílfari. Kanski einna helst það höfðíngjaslekti með fríbréf þjóðfélagsins sem drykkjuræflar hafa laungum myndað á Íslandi og þurftu að komast uppí sveit að súpa hundalyf af stút á þúfu útí móa, útreknir af konunni; ellegar götustrákar sem slóu saman í bíl uppað Skólavörðu og suðrí Skerjafjörð; og úngar stúlkur sem vildu keyra ókeypis útá laglegheitin. Hrísbrú hélt áfram að vera athvarf Stefa þó hann væri orðinn einn af örfáum bifreiðastjórum landsins og forkólfum nýrrar aldar. Ótaldir voru þeir dagar sem hann lá uppíloft ennumsinn undir bifreiðum, eða stóð í hálshnútunum með nefið oní mótornum, og fékk síðan að sofa heimahjá sér á kvöldin, á meðan bændasynir höfðu hleypt heimdraganum og voru orðnir daglaunamenn fyrir sunnan og sáu penínga á hverjum degi. Þángaðtil þau tíðindi verða í höfuðstaðnum sem fæstir menn höfðu gert ráð fyrir, að Öskuláki hrökk uppaf og hætti að bera ösku og safna rigníngarvatni í tunnu. Þegar farið var að gera upp eignir transportmannsins eftir jarðarförina, þá var Stefán Þorláksson til kvaddur að ráðstafa föggum föður síns ásamt með yfirvöldunum. Hinn látni hafði átt ein spariföt, kirkjufötin sín, talin fertug en einsog ný. Þarfyrirutan vinnuföt hans úr striga, mjög borin og stögluð með seglasaumaraspori, en ekki sjáanlegt að komið hefði á þau arða né sletta af neinu tagi í öll þessi ár. Margir stokkar voru hér fullir með ryðnagla sem hinn látni hafði fundið á förnum vegi eða dregið útúr fúaspýtum og feingist við það í strjálum tómstundum, svo og á stórhátíðum, að rétta þá og gera þá beina. Hann lét og allmikið eftir sig af fornu brauði á ýmsum aldurstigum frá því að vera tiltölulega nýmyglað brauð, loðið af grænni eða grárri feyru sem nú á dögum mundi heyra undir penisilín, allar götur aftur í brauð frá hinni öldinni og var laungu byrjað að verða að steini; auk vasstunnunnar sem fyr var nefnd. Hjólbörur mannsins, fundnar upp af kaldeum í framhaldi stjörnuspáfræðinnar, voru ekki taldar. Leingi sást skiftaráðöndum yfir gamla vörukassa sem stakkað var bakvið hurðina í bíslaginu, sumt úr fjölum, annað úr pappa, og var stimplað á flesta þeirra Thomsens Magazin, nafn danskrar verslunar sem verið hafði hér á fyrri öld. Höfðu sumir embættismanna orð um að töf ein mundi verða að því að lúka fleiru upp á þessum stað. Þó var til málamynda ráðist í að prófa nokkra kassa úr Thomsens Magazin. Þá kom uppúr dúrnum að kassar þessir voru troðnir og skeknir af slegnu silfri, kassi á kassa ofan. Mest var af 25eyríngum, einnegin feikn af 50eyríngum, krónupeníngum, tveggjakrónupeníngum, meira að segja 10krónu gullpeníngar innanum, hver peníngur um sig vandlega vafinn í snuddu úr avísblaði. Nú var ekki tími til að fara heim að éta og sofa, heldur varð að sækja fleiri embættismenn til að telja penínga. Loks var peníngunum ekið til bæjarfógetaskrifstofu og var það ærið verkefni margra manna í nokkra daga að stakka peníngunum eftir stærð og búa um þá í staungum. Silfur þetta reyndist nema að verðgildi 40 þúsund gullkrónum. Gull Öskuláka kom Stefa á skörúngsbraut bæði í fóstursveit hans og með þjóðinni allri og stóð undir mikiili framkvæmdasemi hans ásamt höfðíngsskap með örlæti sem varð landskunna. Einsog fyr var sagt verða þess eingin tök að segja sögu Stefáns Þorlákssonar á fám blöðum um týnda smámuni í Mosfellsdal. Til þess verður annar maður að fara á stúfana og semja stærri og betri bók. Fyrir arf sinn reisti Stefán Þorláksson bifreiðahöll handa höfuðborginni suðrá Grímsstaðaholti með einhverjum þeim þykkustu sementsveggjum sem til eru hérlendis og gólfflötur meiri en önnur hús höfðu haft á landinu framtil þess tíma. Þar gátu bifreiðaeigendur geymt bifreiðar sínar í skjóli fyrir veðri og vindum árið um í kríng, en átt jafnan aðgáng að þeim þurum og hreinum í höll þessari ef þeir vildu aka út að skemta sér til að mynda á Sumardaginn Fyrsta eða á Frídag Verslunarmanna. Líka gátu þeir farið til og strokið bifreiðarnar og fægt og farið í grópin með tannstaungli þegar þeim gafst tími til, ellegar einfaldlega horft á þær; einnig lagst undir þær og gera við þær ef þeir höfðu laungun til. Við betri aðhlynníngu bifreiða snaróx fjöldi þeirra í höfuðborginni þau árin. Um þessar mundir hafði Reykjavíkurborg reist fyrirmyndarbú til að rækta kartöflur uppí Mosfellsdal en það komu aungvar kartöflur upp. Fyrirtækið fór yfrum sem lesa má í blöðum frá þeim tíma. Var leingi bent á hrakfarir búsins í sama orði og mótekjuna miklu uppá Kjalarnesi til sannindamerkis um hvernig alt fer á hausinn hjá því opinbera, nema skattstofan. Þá kom uppúr dúrnum að þetta fyrirmyndarbú höfuðborgarinnar hafði verið reist á mesta örreytiskoti Mosfellshrepps, Hlaðgerðarkoti þar sem ekki skín sól. Í upphafi hafði verið hlaðið þarna gerði utanum mannýg graðneyti frá prestinum, og stóð aldrei til að þar bygðu menn. En þarna var heitur lækur; og í sandinum þar sem lækur þessi rann í ána voru bökuð brauð prestsmaddömunnar í nokkrar aldir og mun þess vera áður getið hér á blöðunum. Þegar fram líða stundir voru gerð torfhrúgöld handa þurfamönnum Mosfellshrepps á þessum stað og búin til saga um fornkonu sem hafði átt að nema hér land, frú Hlaðgerði. Í Hlaðgerðarkoti voru aldrei nema amúlerar, þó hafði ekki komið þar stóramúleri fyren höfuðstaður landsins fór að safna þarna miljónaskuldum á tilraun til að sá kartöflum. Frá þessu voðalega fyrirmyndarbúi bjargaði Stefán Þorláksson höfuðstað landsins og hinu opinbera með því hann lét borgina hafa bílskúra sína á Grímstaðaholti sem einlægt stóðu tómir, en fékk Hlaðgerðarkot í staðinn ásamt því greifalegu landhúsi sem höfuðborgin hafði í utanviðsigheitum reist munaðarlausum börnum þar á bala við ána. Höfuðborgin hafði ekki athugað fyren um seinan að í sandinum var ekki aðeins hægt að baka brauð handa prestkonum, heldur lá Hlaðgerðarkot á einu mesta hverasvæði heimsins; tilheyrðu þessum kotrassi heitar uppsprettur með vatnsmagni sem nægja mundi til að hita upp New York. Jarðhiti er að því leyti ólíkur kolanámu að náman eyðist eftir því sem tekin eru meiri kol uns hún fer á hausinn, en sjóðandi hverir hafa óbreytt vatnsmegn í miljón ár, hvort sem tekið er mikið eða lítið vatn. Nú vitnast að hita mátti upp allan höfuðstað landsins með sjóðandi vatni sem spratt þarna gratís uppúr jörðinni í stríðum straumum ár og síð. Borgin fer nú öðru sinni bónarveg til Stefáns Þorlákssonar, að þessu sinni til að fala af honum hveravatn sér til hita og til þess að útrýma kolum og olíu á Íslandi. Fyrir þetta vatn voru Stefáni goldnar fjárupphæðir hærri en menn höfðu áður kunnað að nefna hér á landi. Vatnið var leitt suður í víðum bunustokkum með þeim árángri að slík ókjör af sjóðheitu baðvatni koma á hvert nef í Reykjavíkurborg að annað eins er óþekt á jörðinni nema í Petrópavlofsk á Kamsjötku. Til að mynda í litlu húsi einsog því þar sem þessir sagnaþættir eru skráðir renna inn og út 17280 lítrar af sjóðheitu vatni á hverjum sólarhríng úr hver Stefáns Þorlákssonar.