TUTTUGASTI OG ÞRIÐJI KAPÍTULI Eftirmáli
4ða apríl 1965 þegar Mosfellskirkja hin nýa var vígð, gjöf Stefáns Þorlákssonar, ein fegurst kirkja og best búin sem nú stendur á Íslandi, þá bárust henni ýmsar veglegar gjafir. Flestar komu gjafir þessar frá ættmennahópum í sókninni, niðjum þeirra manna er fyrir eina tíð höfðu séð kirkju sinni er þeir trúðu á jafnað við jörð hér á hólnum. Ný kynslóð fagnaði nú kirkju lángfeðga sinna er hún var aftur risin á þessum sama hól eða réttara að segja ofan stigin úr því háu túni sem hún þaðan hafði mænt yfir Mosfellsdal um sinn og geymdu hennar þrjú jórtrandi lömb. Meðal þessara gjafa voru margir dýrgripir, sumt af góðmálmi, sumt listaverk snillínga; þar voru í meðal ljósahjálmar og kertastjakar, blómker og málverk; einnegin messuklæði og dúkar; forláta skírnarsár af silfri ger, á stöpli. Sjálf er kirkjan þiljuð í hólf og gólf með dýrum viði mjög unnum og sæti öll mjúklega stoppuð. Ósýnileg hitaleiðsla í veggjum og gólfi. Klukkur hríngja án klukkara ef þrýst er á typpi, annaðhvort þegar í stað ellegar stilla má fyrirfram á ákveðinn dægramund, því kerfið er aukið úrverki. Nú er búið að styðja á typpið. Sólin glampar á marglit þök bifreiða sem standa í þéttri kös altíkríngum guðshúsið útum hlöð og tún. En hún skín einnin innum gluggann í Mosfellskirkju einsog forðum tíð meðan ekki var til bíll og einginn vissi hvað orðið erfiði þýddi. Og með því kominn er sumarmánuður í almanakinu, og þó sumarmánuður sé aðallega miðaður við kindur, þá dirfist samt vorfuglinn heiðló að kvaka feimnum þó vonglöðum rómi ofanúr Kirkjugili, sá fugl sem hljóp samsíða Ólafi á Hrísbrú þá er hann reið með klukku í fángi sér yfir Skriðuna. Ekki má láta undir höfuð leggjast með öllu að geta þess að ofangreind gömul klukka, hún kom aftur alkomin í gær. Hann Íngimundur kallinn á Hrísbrú, einn af teingdasonum þessara gömlu hrísbrúarkarla, skilaði henni kvöldið fyrir vígslu með álíka sjálfsögðum hætti og þegar verið er að skila prestlambinu úr fóðrunum. Þetta er kórónu- eða krónuklukka, sem sumir kalla svo af því keingurinn sem teingir þessar klukkur við ramböldin er festur ofaní klukkuhöfuðið með digrum koparlykkjum og mynda sexálma kórónu. Sú klukka sem hér um ræðir er falleg í laginu en hún er klúrt unnin og hrjúf áferðar; hvorki kólfur né króna steypt, aðeins óvandlega hamrað; skrautrendur tvær sem gánga kríngum bumbuna, uppi og niðri, í meira lagi skakkar, gerðar í mótið fríhendis eftir auganu. Lángt er síðan svo frumstæð vinnubrögð í koparsteypu hafa viðgeingist í löndum þaðan sem íslendíngar hafa feingið kirkjuklukkur. Fróðlegt væri að vita hvar svona klukkur hafa verið steyptar síðan fyrir árið 1000. Eftilvill er klukkan það gömul að þetta var ekki í fyrsta sinn sem hún hafði legið í fjóshaug í nokkrar kynslóðir; og þessvegna ekki heldur í fyrsta sinn sem komin var til skjalanna önnur veröld og aðrir dýrlíngar og önnur trú þegar hún var fest upp aftur. Klukkan var fest upp í kórnum, vinstramegin við altarið, í þessari nýu kirkju. Það er einginn efi á því að þessi klukka geymir hljóm síðan úr fornöld. Presturinn sagðist ætla að hríngja henni sjálfur við barnaskírnir af því hljómurinn í henni væri svo fallegur meðan hann væri að deya út. Þetta er lítil klukka; hæð, utanmál, 34 cm; þvermál 24 cm. Tónn hennar er mikill í sér, lángur og skær og dvín titrandi. Silfurkaleikur stendur á altarinu. Þetta er verklegur kaleikur, hæð 18 1/2 cm, þvermál bikars 11 ½; þvermál stéttar 13 cm. Á miðjum fæti er þykklöguð kríngla um liðinn þar sem bikarinn er skrúfaður saman, og utanum hana kveiktur hríngur settur með skorir alt í kríng. Svona skorir í skreytíngarskyni eru stundum kallaðar enskar frísur eða gafldældir. Undirritaður spurði prestinn hver hefði gefið þennan kaleik en hann mundi ekki glögt hver komið hafði með hann, mintist þess þó að tiltekinn bóndi roskinn héðan úr sveitinni hefði fundið þenna grip í rusii eftir kellíngu sem var á hreppnum og dó hjá honum komin á níræðisaldur árið 1936. Einginn hafði vitað til að þetta munaðarlausa gamalmenni geymdi dýrgripa frammí dauðann; þaðanafsíður hvernig þessi kaleikur var kominn í hennar vörslur; síst af öllu hverjum hún var að geyma hann. Enda var þetta sú kona sem eitt sinn hafði spurt: Getur nokkur nokkurntíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér? Gamlir menn fyrir 35 árum sögðust þekkja gripinn aftur og væri þetta forn kaleikur Mosfellskirkju. Og lýkur þessari jarteinabók. Sumarið 1970; drög í Róm 1963