TUTTUGASTI KAPÍTULI Af haugbroti
Þegar Finnbjörg var látin sendi Ólafur karl Andrés son sinn á fund sóknarprests Lágafellskirkju, þeirrar kirkju niðrí sveit sem var laungu orðin sóknarkirkja mosdæla að lögum. Kvaðst Ólafur vera orðinn of sjóndaufur til að grilla lágafellspresta svo hann næði til þeirra að berja þá. Það var ennfremur í erindum Andrésar að tjá presti að faðir sinn væri í því ráðinn að grafa konu sína í mosfellskirkjugarði og réði lágafellsprestur því hvort hann hunskaðist þángað á tilteknum degi og kasta rekunum; að öðrum kosti mundi hann, Ólafur á Hrísbrú, gera það sjálfur. Er þar skemst frá að segja að ekki var tekið óljúflega í þetta mál af þartilbærum yfirvöldum. Nú er lík húsfreyu hefur verið lagt í kistu og borið til skemmu og bærinn tómur og alt á enda kljáð, sagði Stefán Þorláksson, og líður að útfarardegi, þá kallar Ólafur bóndi á sonu sína og fósturson og leggur fyrir þá þraut. Þess var áður getið hér á blöðunum að svöð hafi verið eigi allsmá fyrir framan hlaðstétt á Hrísbrú og hefði einginn mælt þeirra dýpt og ekki heldur verið augljós mörkin milli þeirra og fjóshaugs mikils ásamt með hlanfor sem þar vall og hafði ollið leingi. Hafði forin ekki verið tæmd til fullnustu svo menn ræki minni til. Nú bregður svo við að Ólafur bóndi sendir lið sitt í for þessa með verkfæri þau sem þurfti og lætur hefja austur og gröft; segir að eigi skal láta staðar numið fyren þeir komi niður á dýrgrip sem fólginn sé djúpt í hauginum. Nú fara þeir til og brjóta hauginn og er gagnslaust að lýsa slíku verki hér svo lángt sem um er liðið og einginn maður veit leingur hvað hlanfor er á íslandi. Mundi ekki svipað gilda um óþrifaleg verk einsog fyr var ritað um erfið verk? Áður fyr voru eingin verk kölluð sóðaleg nema þau sem unnin voru án vandvirkni af kæríngarlausum verkamanni og lýstu handbragði skussa og ómennis. Hvort sem ausið var eða grafið leingur eða skemur í hrísbrúarsvöð, þá er ekki að orðleingja það, nema seinast koma menn það lángt niður í þessari voðalegu torfæru að rekuna tekur niðri og saung í málmi þar sem hún snart við. Menn hafa hendur á gripnum og losa um hann og bera burt úr forinni og uppá dyrakamp. Nú velta þeir grip þessum fyrir sér uns þeim kemur saman um að kveðja til Ólaf bónda og spyrja hann ráða. Hann þreifar á gripnum innvirðulega um stund uns hann kennir að þetta er kirkjuklukka. Hann segir að þessa klukku skal þvo vandlega og síðan fægja. Þvínæst fór hann inní bastofu og fann kólfinn úr klukkunni á kistubotni húsfreyar sinnar. Stefán Þorláksson hefur sagt frá þeim morni er hann fór með Ólafi fóstra sínum í undanrás að Mosfelli að búa í haginn áður en líkfylgdin kæmi. Þetta var um sumarsólstöður. Gamli Rauður var sóttur í hagann og stendur á hlaðinu ærið vambmikill. Það var lagður á hann hnakkur fyrir utan opna skemmuna en þar hafði öllu drasli verið rýmt burt svo rúmt væri um kistuna. Synir Ólafs leiddu föður sinn útúr bænum en hann bar sjálfur klukkuna í fángi sér, og var klukkan fljót að fá aftur þá spansgrænu sem fylgir sönnum kristindómi. Synir Ólafs héldu í ístaðið hjá föður sínum og hjálpuðu honum á bak þeim rauða. Síðan létu þeir klukkuna í fáng honum þannig að hann gat samt haldið sér í faxið á hestinum. Fóstursyni fólksins var síðan sagt að teyma undir gamla manni sem leið lá heim að Mosfelli og láta staðar numið þar á hólnum fyrir utan sáluhliðið í mosfellskirkjugarði. Sveitin var ekki meirensvo risin úr rekkju og vorfuglinn heiðló hljóp samsíða þeim yfir Skriðuna og blés í veika flautu en kólfurinn í klukkunni var laus og gall við með skjöllu málmhljóði þegar Rauður hnaut við steinvölu í götunni. Ólafur bóndi gerði sín ekki vart heima á Mosfellsbænum en lét fósturson sinn leiða sig að sáluhliðinu og bar enn klukkuna í fánginu. Hann sagði að binda skyldi Rauð við garðstaur svo hann færi ekki í túnið, því síðan hér hættu að vera mínir prestar beiti ég aldrei á mosfellstún, sagði hann. Þeir njörvuðu klukkuna með snærum við dyradróttina í sáluhliðinu. En með því ramböld vantaði sem bjalla verður að hafa svo hún leiki laus þegar tekið er í klukkustreinginn, og hríngíngin fái lángan tón af sveiflu, þá varð Ólafur á endanum að gera kólfinn lausan og dángla utaní klukkuna með honum. En þó hríngíng væri hljómlítil og ögn bundin var þetta þó klukknahljóð og hljómur Mosfellskirkju. Þegar líkfylgdin nálgaðist tók hann til að hríngja. Hann linti ekki hríngíngu meðan kistan var borin um sáluhliðið. Hann hríngdi meðan fólkið var að tínast inní garðinn. Hann hríngdi meðan kistunni var sökt í jörðina og meðan presturinn var að kasta rekunum og fólkið að tínast burt frá gröfinni en rétti annars hugar þá höndina sem laus var þeim sem kvöddu hann og samhrygðust honum, uns fóstursonur hans sem sat á þúfu sagði honum að nú væri seinasti maður farinn og alt búið. Þannig hríngdi Ólafur kallinn á Hrísbrú alla sveitina inn í kirkjugarðinn á Mosfelli og útúr honum aftur. Viku seinna fór Ólafur aftur sömu leið, að því sinni í fjórum skautum, að finna konu sína. Bogi sonur hans bar nú klukkuna á sjálfum sér fyrir kistu föður síns, festi hana í dyradróttina á sáluhliðinu einsog faðir hans hafði gert í vikunni á undan og hríngdi einsog faðir hans hafði hríngt uns lokið var, leysti síðan klukkuna af dyradróttinni og bar hana heim aftur að Hrísbrú.