NÍTJÁNDI KAPÍTULI
Fróðárundur hin nýu
Það væri þarfur maður sem skrifaði sögu af Stefáni Þorlákssyni, þó hefur blekbóndi sá sem hér er að verki ekki bein í rófunni til þess. Um leið og þessi næturgestur kom að Hrísbrú bættist nýr dráttur í andlit sveitarinnar: dreingurinn sem vildi framleiða hákal í tunnu. Hann var súrdeigið sem boðaði traffík og konkúrensi í þessu brauði.
Stefán Þorláksson var einlægt í hnífakaupum, það gerðu hrísbrúarmenn aldrei. Hann eignaðist allrahanda hnífa, byrjaði á því að skifta slétt en fór svo að reyna að fá stóran hníf fyrir lítinn eða tvo fyrir einn. Einu sinni kom hann með sveðju handa Ólafi fóstra sínum svo hann gæti farið í bardaga en Ólafur kallinn sagðist ekki leingur sjá til að berjast og sagði stráknum að fara með þetta til Fimmbjargar. Konan sendi vopnið frammí eldhús og sagði að það mundi vera gott að skera með þessu fisk.
Þegar hann fermdist gáfu þeir honum tóbakspípu en ekkert tóbak. Honum fanst þetta einkennileg gjöf en Finnbjörg sagði að fleiri hefðu dáið úr tóbakslofti en moðreyk og móreyk sem þó hefur verið mest óloft á Íslandi. Pilturinn skildi þessa konu þó hún benti ekki alténd beint þegar hún kendi og það hefur verið sagt um þennan næturgest að hann hafi lifað svo lífi sínu að hann tók aldrei mark á annarri manneskju. Hann hló að flestu sem aðrir sögðu og var því talinn léttlyndur maður en vilja hennar geymdi hann með sér ævilángt og sagði um fóstru sína að hún hefði verið svo lángt á undan öðrum mönnum að það varð að fara uppá hól til að sjá hilla undir þann næsta. Hann gekk í tóbaksbindindi um leið og hann fékk pípuna og braut það ekki ævilángt; afturámóti hafði hann eignast níu tóbakspípur eftir viku (18 segir þjóðsagan).
Honum var gefið trippi og hann beið einn vetur eftir að úr því yrði hestur. Um haustið fór hann í Kollafjarðarrétt að draga fé hrísbrúarmanna því hann var sjónskarpur á eyrnamörk. En þó hann hefði í nógu að snúast um daginn vanst honum tími til að fara í hrossakaup. Þegar hann kom heim um kvöldið hafði hann að vísu látið hest sinn, en kom með þrjú hross í staðinn, stóðmeri og folald sem undir henni gekk, auk þess fullorðinn áburðarhest.
Þá voru fyrstu bifreiðar að koma í landið og fróðárundur hin nýu hafin með bændaþjóð sem unnið hafði með sömu amboðum síðan árið 900, enda þekti bráðum einginn bóndi leingur sjálfan sig og skáldin fóru að gráta á prenti sökum missis á sjálfumleika. Einn góðan veðurdag ekur Stefán bifreið sem hann sjálfur á heimundir túngarð á Hrísbrú, og skilur hana þar eftir því hann treysti henni ekki í svöðin. Bifreiðar sem þá komu voru víst einhver gargön frá upphafi, fluttar híngað útásaðar frá Kanada og stóðu fastar hér, einkum og sérílagi á þjóðbrautum. Menn geingu afturábak að ýta þessum farartækjum upp brekkur en þau ultu ofan brekkurnar jafnóðum samkvæmt þýngdarlögmálinu. Samt dáðust allir að bifreiðum og byrjuðu að trúa á þær, Stefán Þorláksson manna mest. Hjá mörgum komu þær í staðinn fyrir Írafellsmóra og sauðskepnuna og brennivínið, hjá sumum komu þær í staðinn fyrir sjálfumleikann sem þeir höfðu mist. Þótti mikið snjallræði á sunnudögum að aka bíl úr Reykjavík alt hvað aftók austurá Þingvöll, 50 kílómetra, að kaupa sér flösku af ropvatni.
Stefán lét hesta sína og aðrar eignir fyrir bíl og hafðist nú við úti á þjóðvegum um nokkurt árabil, þó skrifaður á Hrísbrú og átti þar innhlaup. Hann flutti hugað fólk úr einum stað í annan, stundum fyrir penínga. Hann gerði tilraunir með að nota steinolíu í stað bensíns og útkoman var fagurblár útblástur samfara einkennilegum skellum og skruðníngum í mótornum. Stundum þegar bíllinn hafði staðið kjur um sinn uppá Mosfellsheiði komu forframaðir ropvetníngar aðvífandi og buðu fram hjálp sína og báru logandi eldspýtu að bensíndúnknum hjá Stefa; en með því bíllinn sprakk ekki í loft upp samstundis drógu þeir af því þá ályktun að hann væri bensínlaus. Var nú maður sendur til bygða að reyna að kaupa bensín eða minstakosti fá lánaða steinolíu. Einn svona ford í skemtiferð til Þingvalla, og blár reykur afturúr, gerði meiri hávaða en samanlagðar fordverksmiðjurnar í Detroit. Oft varð bílstjórinn að láta fyrirberast á heiðinni dægrum saman meðan hann var að eiga við mótorinn. Ljóðmæli eru til á íslensku frá þessum dögum um menn sem voru orðnir rammflæktir í mótorum sínum einsog heimspekíngar í kerfum sínum (og mætti kanski bæta við nú á dögum: einsog hugmyndafræðíngar í úníversalteoríum sínum).
Stefi Stuttalákason, einsog krakkarnir kölluðu hann, varð snemma álíka frægur af fordisma og aðrir af freudisma og ýmsum framsæknum lífskoðunum sem þá voru að byrja hjá mönnum. En svo sagði hann sjálfur frá að þó hrísbrúarmenn fnösuðu frammí nefið yfir skrýtnum fugli sem skriðinn var úr eggi meðal þeirra, þá miklaðist hann þeim og þeir voru honum unnandi á sama hátt og bróður sem borinn er í öfgulíki, kanski með tvö höfuð, og má ekki setja í hann fótinn af því maður skilur ekki guð. Aldrei láðu hrísbrúíngar Stefáni þó hann væri þrjá sólarhrínga að komast austrá Þíngvöll að kaupa sér flösku af ropvatni og yrði að liggja úti með bíl sinn á heiðinni. Það var einsog þessir fornmenn fyndu á sér að hinn ókennilegi gestur sem komið hafði til þeirra eitt haustkvöld, og byrjað traffík og konkúrensi í sveitinni, væri kominn alkominn.
Um mentun Stefáns Þorlákssonar er fljótskrifað. Hann var að komast á legg þegar fræðsluskylda nútímans var rétt aðeins ólögfest. Fyrir fermíngu var hann sendur ásamt nokkrum öðrum börnum er líkt stóð á um til bóndans í Laxnesi að læra kver og biflíusögur, svo og reikníng frammí þríliðu og brot og skoða landkortið í Þórarinsbókinni þar sem heimurinn er klofinn í tvent einsog sviðahaus.
Kristindómur var ekki iðkaður á Hrísbrú, utan Finnbjörg mun hafa átt postillu en las hana sjaldan og talaði aldrei um hana. Kristindómur þessa fólks hafði ævinlega verið í því fólginn að fara til kirkju, og því þótti fánýtt að lesa um guð í bók, og enn meiri fjarstæða nú eftir að búið var að jafna kirkju þess við jörðu. Bænagerð eða þvíumlíkt mundi Stefán ekki til að hafa heyrt í sínum uppvexti eftir að hann hætti að stunda kirkjugaungur með Láka fyrir sunnan; hann taldi kristindóm fyrir utan sig af því hann gæti hvort sem er ekki breytt honum neitt ef hann skyldi vera rángur. Stundum fór Finnbjörg með eitthvað eftir séra Jón heitinn á Bæsá, en Stefán lagði ekki eyrun að því og hún reyndi aldrei að kenna honum það, enda var víst ekki alt par fallegt eftir þann kall, sagði Stefán, og fór með vísuna „Ég fer á alt hvað fyrir mér verður“, sem hann hafði lært af bílstjórum en ekki fóstru sinni. Afturámóti kendi hún uppölsludreingnum að prjóna sokka svo hann gæti haft eitthvað fyrir framan hendurnar ef hann yrði blindur. Hún lét hann sitja hjá sér og hjálpaði honum ef það varð lykkjufall. Annars heyrði Stefán, að sjálfs sögn, aldrei talað um neitt yfirnáttúrlegt í Mosfellsdal þau tuttugu ár sem hann var þar viðloðandi, utan fyrnefndan draug frá Írafelli í Kjós. Draugur þessi kom iðulega yfir Svínaskarð í skammdeginu, einkum í byljum; á sumum uppbæum sveitanna kríngum Esjuna var honum skamtað útá bæarkamp á kvöldin, en ekki á Hrísbrú þó mönnum sýndist hann stundum vera að lurfast þar í gaungum eða húsasundum í ljósaskiftunum. Finnbjörg aftók að látinn væri matur í skál uppá bæarkamp handa draugnum, sagði að flökkuhundar eða urðarkettir ætu þetta upp á nóttunni, vildi ekki láta tixa híngað útigángsvarg.
Það sagði Stefán að hann sæi mest eftir, að hann hafði gleymt að spyrja konuna nokkurs þessi þrjú ár eða fjögur sem honum varð þess auðið að sitja við sjúkrabeð hennar, nema smávegis viðvíkjandi prjónaskap. Var hún í rauninni veik? — þá spurníngu sagðist hann oft hafa lagt fyrir sig síðar. Eða voru kanski allir veikir nema hún? Þessar óteljandi konur á íslandi sem láu í kör í átján ár, var nokkuð að þeim annað en þær voru of sterkar til að geta tekið þátt í þeirri eymd og endurleysu sem allir aðrir tóku gilda rúnt um lansins púnt og hugguðust við einsog ölmusumenn af kaunum sínum, jafnvel glöddust af. Hann sagði að blæ af hógværð stillíngu og hreinlæti sem andaði frá konu þessari hefði hann leitað að síðan en ekki fundið hjá kvenmönnum, var þó á þollausum erli á þjóðveginum ævilángt.
Lítil stundaklukka með gler fyrir skífunni, og mynd af blómi á glerinu, tifaði í góðri ró á hillunni yfir rúmi þessarar þögullar konu. Þetta tif gat ofangreindur næturgestur á Hrísbrú heyrt alla ævi síðan, hvenær sem honum gafst svipstundar tóm til að hlusta inní sjálfan sig; uns hann hné útaf á þjóðveginum.