ÁTJÁNDI KAPÍTULI
Næturgestur á Hrísbrú
Nú víkur sögunni aftur upp í Mosfellsdal, þá kirkjusókn sem fyr var frá horfið enda búið að leggja niður brauðið og jafna kirkjuna við jörðu og allir fyrir laungu farnir að hugsa um eitthvað þarfara. En þó tímarnir breytist, þá eru haustrigníngarnar ávalt samar við sig þar í sveit. Leiðinlegastur er hann á landssunnan með þeim rokum sem þá eru viss passi. Ég man ekki hvort ég hef getið um það áður, að í þeirri sveit er tíð og tími miðaður við sauðfé, ekki menn. Þetta hafði verið heldur vont haust fyrir sauðfé. Þegar hér var komið sögu þá er komið fram um skilarétt og farið að styttast þángað til farið verður að taka lömb. Þau voru blaut foröðin á Hrísbrú núna þar sem vegurinn lá norðrí land. Hann stóð uppá gluggann hjá henni Finnbjörgu sálugu þar sem hún var að prjóna við ljóstýruna sína sem lifði þó önnur ljós væru slökt í dalnum. Piltarnir voru að gánga frá hurðum undir nóttina því slagviðrið stóð uppá þeimmegin.
Í þessu veðri kemur uppúr dúrnum að eitthvað kvikt er að brölta í þjóðgötunni þar sem hún liggur heim tröðina. Er þar skemst frá að segja að þetta kykvendi bjargar sér úr forinni og uppá hlaðstéttina og sest þar á bæarhelluna í slagviðrinu akkúrat í skímuna sem lagði útum bastofugluggann hjá henni Finnbjörgu.
Þeir feðgar voru að vísu ekki mjög sjónskarpir í björtu, en sáu afturámóti furðu vel í myrkri. Fá þeir nú ekki betur séð en þarna skreiðist uppúr forinni piltúngur þeygi mikill og ekki öllu meiri að vallarsýn en Írafellsmóri sem laungum hafði verið frægust persóna og mestur draugur í sveitunum kríngum Esjufjall, þó ekki sé hans getið á þessum fátæklegum sagnablöðum.
Synir Ólafs segja við föður sinn: Það er einhver kominn.
Er það maður? spyr Ólafur.
Það ber ekki á öðru, segja þeir.
Þó Ólafur heitinn sæi á því méli varla til að pissa í björtu, að því hann sagði, þá treystu synir hans honum þó betur en öðrum til að sjá mun á manni og draug í myrkri og báðu hann skera úr í þessu máli. Ólafur bóndi geingur frammá hlaðhelluna og spyr:
Hvaðan kemur þú í þessu veðri lapm?
Ég kem að sunnan, svarar lítill dreingur.
Og hvert ætlar þú? spyrja þeir.
Ég ætla norður, sagði dreingurinn.
Hver á með þig, spyrja þeir.
Hún Sólrún, sagði dreingurinn.
Og hver er Sólrún, sögðu þeir.
Hún er dáin, sagði dreingurinn.
Hvað ætlar þú lángt norður, segja þeir.
Í Eyafjörð, sagði dreingurinn.
Ratar þú norður í Eyafjörð?
Já sagði dreingurinn.
Ertu ekki hræddur, sögðu þeir.
Jú sagði dreingurinn.
Veistu ekki að það eru fjórtán dagleiðir með lest norðrí Eyafjörð, spyrja þeir.
Ég er ekki með lest, sagði dreingurinn.
Leiðin liggur yfir verstu vatnsföll á landinu.
Það gerir ekkert til, sagði dreingurinn. Ég er búinn að vaða þrisvar í dag.
Voru ekki árnar okkar hér í sveitinni nógu djúpar handa þér, Kaldaklofslækur og Kortúlstaðá?
Nei, sagði dreingurinn, þær voru bara í háls.
Þá spyr Ólafur bóndi: Við hvað ertu hræddur lapm, ef þú ert ekki hræddur við að vaða uppí háls.
Ég stal sjóhattinum hans Öskuláka, svarar dreingurinn. Ég var svo hræddur um að þeir sem ég mætti á veginum mundu þekkja mig.
Hefur búist við að verða fleingdur, já, sögðu hrísbrúíngar.
Dreingurinn sagði: Ég sneri hattinum við á hausnum á mér. Ég lét það sem er aftur snúa fram so það þekti mig einginn.
Síðan heldur hann áfram ferðasögunni: So lá gatan yfir voðalega lángt holt. Þá varð ég aftur hræddur. Ég hljóp einsog ég komst. Ég datt og datt. Það var ekkert hús. Einginn maður. Eingin skepna. Ég hélt það mundu koma ræníngjar og ráðast á mig. En ég komst undan. So varð ég hræddur í þriðja sinn. Það var að koma myrkur og gatan lá undir voðalega stóru fjalli. Ég hélt fjallið mundi hrynja oná mig. Ég þorði ekki annað en hlaupa lángar leiðir útúr götunni alla leið niðrundir sjó so ég yrði ekki undir fjallinu þegar það hryndi.
Þess var áður getið að hrísbrúíngar lögðu ekki í vana sinn að spyrja gesti hvernig þeir væru haldnir þó þeir ættu leið um hlöðin. Hvernig sem á því stóð brugðu þeir vana sínum þetta kvöld. Jafnvel Ólafur sálugi sem lét sig næturstaði fólks litlu skifta, hann segir svo við þennan ferðamann:
Hvar hefur þú hugsað þér að vera í nótt?
Ég veit það ekki, sagði dreingurinn.
Hefurðu feingið nokkuð í þig, segir Ólafur bóndi.
Jájá, segir dreingurinn.
Hvunær, spyr Ólafur karl.
Um daginn, sagði dreingurinn.
Daginn? Hvaða anskotans dag, spyr bóndi.
Ég sosum man það ekki, sagði dreingurinn.
Þá segir Ólafur við syni sína: Missiði hann ekki útí veður og vind rétt á meðan ég skrepp inn og spyr hana Fimmbjörgu.
Eftir stundarkorn þreifaði Ólafur heitinn sig til baka frammí bæardyr og bauð Stefáni Þorlákssyni að gista.
Hann gisti þar í 20 ár.