SAUTJÁNDI KAPÍTULI
Að koma upp hákalli
Í þann tíma rann opinn lækur í gegnum höfuðborg vora og var kallaður Lækurinn; í honum voru hornsíli. Stundum mátti sjá þar ál sem var að koma úr Saragossahafinu og gánga í tjörn þá sem kölluð er Tjörnin og liggur á bak við Alþíngishúsið og Dómkirkjuna. Norðlendíngur sá er frá var greint í fyrra kapítula hafði það fyrir stafni fyrsta árið sitt í höfuðborginni að sjálfs sín sögu síðar, að hann tók hornsíli og stundum ál með höndunum í Læknum.
Faðir hans fór á fætur einsog fyr getur klukkan fimm á mornana og ýtti af stað þessum frægu hjólbörum sem kaldear fundu upp samkvæmt framþróunarkenningunni í áframhaldi af stjörnuspáfræðinni. Þegar Stefán Þorláksson vaknaði á mornana var faðir hans laungu farinn út. En það var dálítið af rúgbrauði, stundum uppþornað stundum myglað, í kokkúsinu. Stundum var líka sigin grásleppa og biti af kæstri skötu, en af hvorumtveggja þessara rétta leggur þef sem er ókunnur í Norðurlandi. Oft var einnig vatn í fötu. Það var einginn til að tala við þegar maður vaknaði á mornana. Í öðrum stöðum voru ekki heldur vinir né viðmælendur nema nokkrir stærri strákar að fara í skólann og æptu á hann Stebbi Stuttalákason hí. So hann hafði ekki annan selskap en þessa einkennilegu fiska Lækjarins. Bráðlega fann hann þó leiðina oní fjöru og horfði á fiskimennina koma að með fiska sem voru margvíslegir að lit og lögun og sumir stórir, þarámeðal hákall og er mönnum ekki heldur ókunnugur fyrir norðan. Pilturinn var stórhrifinn af þessum fiskum af því þeir voru einu fiskarnir sem hann hafði séð fyrir norðan og í rauninni eina skepnan, að mönnum ekki undanskildum, sem hann kannaðist við hér fyrir sunnan.
Þess var áður getið að faðir hans átti gamla tunnu sem safnaði í sig rigníngarvatni úr rennu ofanaf þakinu á litla steinbænum og þessvegna datt piltinum í hug að fara að framleiða hákal í tunnunni. Hann fann af hyggjuviti sínu að þetta mundi hægt með því að veiða ála úr Læknum og ala þá í tunnunni; það var skoðun hans að álarnir væru svona mjóir af því þeir feingju of lítið að éta í Tjörninni; en þar finnast ekki aðrir fiskar. Hann setti síðan hornsíli í tunnuna hjá álnum af því hann bjóst við því að ef áll æti nógu mikið af hornsílum yrði hann á endanum að hákalli eða að minstakosti eins digur og hákallar. Síðan ætlaði hann að selja hákallinn og kaupa sér fyrir hann nýa skó. Því miður dóu hornsílin fyrir aldur fram í tunnunni og állinn dó líka so það varð aldrei neinn hákall. Ekki skór heldur.
Faðir hans hafði þann sið að hætta að aka ösku klukkan sex á hverjum laugardegi. Þá kom hann heim. Hann færði þá syni sínum bismark í kramarahúsi og iðulega tvær tegundir af sætabrauði og hét önnur sturlabrauð af því hún fékst í Verslun Sturlu Jónssonar en hin hét stafabrauð af því kökurnar voru í laginu einsog bókstafir og ekki stærri um sig en fíngurnögl. Sturlabrauð var grjóthart og dálítið sætt, en stafabrauð var stökt og loft innaní því, og í rauninni ekki sætt þó það seldist sem sætabrauð. Þorlákur hafði heyrt að heldrimannabörn lærðu að lesa af því að éta þetta brauð.
Hann leiddi stundum dreinginn sér við hönd til kirkju á sunnudagsmornum, en vildi ekki láta hann vera með sér þegar hann var að keyra ösku, því honum fanst of mikil léttúð í því að blanda börnum sínum í ábyrgðarmikið embætti sem það er að keyra burt ösku frá merku fólki í bæarfélaginu. Sá sem er að hramsa þetta saman núna man vel eftir Þorláki heitnum öskukalli, hann var allaðeinu og myndin af Michelangelo heitnum Buonarroti, það held ég öllum beri saman um sem haft hafa ástæður til að bera þá saman.
Um veturinn var stundum kalt í bænum hjá Þorláki og lækurinn lá og hornsílin voru ekki viðlátin en állinn farinn á stað í djúpið mikla í Saragossahafinu að því er Stefán Þorláksson sagði þeim er þetta ritar. Dreingurinn fékk kvef og lá í rúminu mikinn part vetrar þángaðtil föður hans tókst að útvega honum grasavatn hjá spákonu frammá Nesi. Faðir hans var önnum kafinn að rétta bogna ryðnagla út öll jólin. Ekki kvaðst Stefán Þorláksson heldur reka minni til þess að það hefði verið mikil sól þann vetur. En á endanum fór þessi himnakroppur samt að gægjast innum gluggann hjá Láka einsog stundum fyrir norðan. Loksins, loksins. Svo kom krían og gargaði syfjulega í Vassmýrinni. Fölur dreingur skreiddist frammúr og fór onað Læk til að gá að vinum sínum hornsílunum og álnum; og svo fór að þeir komu líka. En hákall varð aldrei úr því sem fyr var sagt.