SEXTÁNDI KAPÍTULI
Hefst transportmannsþáttur
Nú víkur sögunni suður einsog sagt er í Mosfellssveitinni þegar átt er við höfuðstaðinn.
Einusinni í fyrndinni þá stóð dálítill steinbær, varla meiren mannhæð undir bustina, í kálgarðshorni við Bergstaðastíginn og Baldursgötuna rétt fyrir ofan Vassmýrina þar sem krían býr. Það var solítill grjótgarður kanski hnéhár í kríngum kálgarðinn. Í kálgarðinum óx arfi. Á bakatil var vasstunnan. Þetta var bærinn hans Stuttaláka sem var kallaður Öskuláki í umtali, en Láki í viðtali og Þorlákur í opinberum plöggum.
Láki var pervisinn maður og bjó þarna. Hann bjó einn. Einhvernveginn átti hann þennan litla steinbæ. Í bænum var bíslag með kössum; og kokkús; og þar var olíumaskína nokkuð sótug og af henni steinolíulykt. Innaraf var kamelsisóveran þar sem hann svaf.
Ekki allir höfðu mikla penínga í þann tíð en þá voru líka 25eyríngarnir úr silfri og jafnvel 10eyríngarnir líka. Þó var einginn kallaður fátækur nema hann væri á hreppnum algerlega heilsulaus eða að minsta kosti brjálaður. Láki var afturámóti sjálfstæður maður af því hann hafði myndað sér atvinnuveg sjálfur. Hann hafði komið sér upp hjólbörum af því tagi sem kaldear fundu upp nokkrum öldum eftir að þeir fundu upp stjörnuspáfræðina, og í þessum hjólbörum ók hann burt ösku osfrv fyrir fólk. Öskuna sótti hann að norðurdyrum manna og ók henni settlega, næstum hátíðlega, niður í Vassmýri og hvoldi þar úr hjólbörunum á haug sem var fyrirskipaður af bæaryfirvöldunum; og reis þar síðan háskóli Íslands ásamt mentastofnunum sem honum heyra og eiga margar eftir að rísa enn. Það kostaði 25 aura á hús að keyra burt ösku, 10 aura fyrir smáslatta. Keyrarinn lét borga sér útí hönd. Hann hafði sérhvern smápeníng útaf fyrir sig í bréfsnuddu svo þeir rispuðust ekki. Hann fór á fætur klukkan fimm á mornana og var oft seint á ferli að kvöldinu. Hann var alveg grindhoraður þó hann hefði nóg rúgbrauð sem hann fékk í bakaríinu fyrir að keyra frá þeim ösku, en gamlir skútukallar kunníngjar hans réttu að honum fisk í fjörunni.
Ég heyrði aldrei getið um neinn sem ætti orðastað við þennan mann, nema götustrákar æptu á eftir honum híhí Stuttiláki, híhí Öskuláki. Hann mun sem betur fer hafa verið heyrnardaufur. Skal hann ekki hafa komist í tæri við kvenmann sumarpartinn sem hann fór í kaupavinnuna sér til skemtunar uppá Kjalarnes. Sá maður hefur enn ekki fæðst á Íslandi að hann hafi ekki fundið kvenmann við sitt hæfi, því allir menn, svo konur sem karlar, eru í heiminn bornir hver og einn undir guðs miskunn. Þessi kona hét Sólrún og var norðanúr landi. Fáir höfðu spurnir um þetta ævintýr en þó flaug fyrir þegar tímar liðu fram, að Öskuláka mundi hafa verið kendur krakki fyrir norðan, einna helst norður í Eyafirði þaðan sem skáldin miklu eru komin.
Nú líður og bíður og bráðum eru liðin sex ár síðan sumarið þegar Stuttiláki fór uppá Kjalarnes. Þá verður það til tíðinda einn góðan veðurdag að fátækrastjórnin í höfuðborginni kemur sig lammandi með lítinn dreing við hönd sér heimað litla steinbænum á fyrskrifuðu götuhorni, og voru að finna Þorlák. Það var einginn heima en fátækrastjórnin settist á grjótgarðinn lága og beið þar með dreinginn uns húsráðandi kom heim. Þetta var fimm ára gamall dreingur. Hann var í treyu af of stórum manni og innaní þessa treyu var saumað bréf sem var undirskrifað og stimplað af valdsmönnum í fjarlægum sýslum og landshlutum. Í því bréfi stóð að dreingur þessi væri sonur Þorláks nokkurs transportmanns í Reykjavík og konu fyrir norðan, Sólrúnar að nafni og var dáin.
Smápiltur þessi hafði verið sendur hreppaflutníng einn síns liðs frá hreppstjóra til hreppstjóra yfir meiren tuttugu héruð alla leið úr Eyafirði, yfir háa fjallgarða, dali heiðar og óbrúuð vötn, og hafði verið á þessu ferðalagi missiristíma, spöl og spöl í einu, einlægt með nýum og nýum samferðamönnum, því fáir höfðu hentugleika til að láta koma á sig lifandi barni nema stutt í einu. Svona hélt dreingurinn áfram för sinni: einlægt ný fjöll og nýir dalir, ný og ný fljót, nýir og nýir næturstaðir, illviðri og hreppstjórar svo aungvu var líkara en veröldin væri endalaus. Nú var þessari lángferð lokið. Ferðamaðurinn situr hér á grjótgarði ásamt hreppstjóra fyrir sunnan og er kominn heim.
Loks kom faðir hans og ók á undan sér hjólbörunum. Hann gekst þegar við dreingnum og kvittaði fyrir honum á blað hjá fátækrastjóranum en þótti leiðinlegt að frétta að móðir hans skyldi vera dáin. Að erindi loknu fór fátækrastjórnin heim til sín en Öskuláki tók son sinn við hönd sér og leiddi hann í bæinn.