FIMTÁNDI KAPÍTULI Lítilræði
Yfirvöld skárust aldrei með formlegum tiltektum í hvarf helgra dóma sem nú var ritað; þótti víst ekki taka því að láta blása úr opinberri átt meira en hæfði á gasa sem gekk görðum hærra í sveitinni. Til að mynda var hvergi skipuð þjófaleit. Einhverntíma heyrðist hvíslað að góðir menn hefðu af enn betri mönnum verið undirstúngnir með að hafa augun hjá sér ef þeir ættu leið um hlöðin á vissum bæum í Mosfellssókn gömlu. Flestir drógu víst bara annað augað í púng og létu þar við sitja enda ekki að búast við að gildir menn sýni sig þesslega að snuðra eftir helgum dómum í hlandforum nágrannans. Með því nú að kirkjan þeirra var fallin og Mosfellsbrauð útmáð úr tölu lifandi brauða og héðanaf ekki guðsorð að hafa úr því brauði að eilífu, þá hugsuðu menn um klukku sína líkt og kallinn sem hjörð hans hafði alla flætt í skeri, nema eina á mókollótta, þessa rollu tók bóndinn og endasendi henni í sjóinn á eftir hinu fénu með þeim ummælum að hún væri best komin hjá anskotanum líka. Líður nú um dal og hól og menn gleyma Mosfellskirkju ásamt klukku og kaleik í þeirri lómollu sem fylgir læknishöndum tímans. Sama hafði gerst mörgum öldum fyr þegar títtnefnd kirkja var tekin af þeim í pápisku og heiðarland hennar gert að uppgaungu fyrir sauðfé Þerneyarkirkju í Sundum og fleira gott brallað. Og á endanum þegar Lausnarinn ránkaði aftur við sér og gaf þeim Mosfellskirkju á nýaleik, þá var komin önnur trú í landið og einginn dýrlíngur framar til nema danakonúngur og Lúter. Allir voru búnir að gleyma hver sá dýrlíngur var sem kirkju þessa hafði átt að upphafi en ýmsir hugðu þann dýrlíng hafa verið Egil Skallagrímsson. Verður nú aftur vikið að því samtali sem blekberi átti laungu síðar við stúlkuna Guðrúnu Jónsdóttur stóru sem þá var orðin sveitarþrot. Já, hún fór oft á milli bæa á merarraskatinu hér fyr meir, hún átti heima í allri sveitinni. Nei, kom aldrei útúr sveitinni; nema einusinni suður að vera við jarðarför, sagði hún. Hún hélt mikið uppá ullarþvott og sjóða keitu og stínga útúr fjárhúsum á vorin; svo náttúrlega sláturstörf hjá fólki á haustin blóðug uppfyrir olboga; einnegin heyskap viku og viku hjá hverjum eftir því sem þurfti til að létta undir með kindaskömmunum, en sló einlægt, snerti aldrei hrífu. Þegar hún sagði „kindaskammir“ átti hún við fólk svona upp og ofan einsog mig og þig og henni var vel til — þó mátulega: Altént boðin og velkomin hjá því veslíngs aumíngjunum a-tarna, já seisei. Ég kunni aldrei við mig öðruvísi en í einhverju benvítis síli. Nei aldrei vistráðin. Aldrei kaup. Dugði bara í drasl. Líkaði best í mógröfum þegar hvergi sást í mann og hvergi mótaði fyrir mannsmynd á manni. Maður var allur blautur innúr af þessari hreinu góðu drullu. Ellegar blessuð fýlan af nýstúngnum mónum! Það er sú mesta skemtun sem ég veit. Og þá var ekki amalegur reykurinn af þurum mónum á vetrin ef það var góður mór. Spurníng: Vildirðu aldrei eignast mann? Aldrei við kallmann kend. Hahaha. Var kóngsins lausakona sem kallað er og hafði bréf uppá það, sumir segja þó gagslaust; kanski falsað. Átti bara eina rauða meri að sitja á. Ég held ég hafi aldrei heyrt þessa nunnu segja meri nema í þetta eina sinn, hún sagði annars ætíð truntan, bikkjan eða hryssutuðran; stundum merarraskatið. Á þessari meri fór konan í kauplausa íhlaupavinnu um heiminn og reiddi undir sér sængurfiðuna sína og skjatta með sparitreyunni ásamt Hugvekjunum eftir dr. theol. herra Pétur Pétursson biskup yfir Íslandi sem hafði látið brjóta Mossvellskirkju. Hún var stundum að stauta sig frammúr þessu seinnipartinn á sunnudögum og reri þá frammí gráðið. Aldrei ásakaði Guðrún Jónsdóttir neinn sem hafði tekið af henni kirkjuna. En þegar ég spurði hana hvernig henni líkaði við Hugvekjur Péturs Péturssonar þá ók hún sér ögn í herðunum og sagði, æ hann er helvíti sálarlaus. Merin var dauð fyrir meira en aldarfjórðúngi þegar ég var að tala við konuna. Samt var merin ein sú mest lifandi meri sem sögur fara af og mér fanst hún einlægt fylfull annað kastið. Oft átti G. J. leið um á Hrísbrú þar sem kollunum var raðað upp á hlaðsteinunum fyrir dyrum úti, en var aldrei föluð þángað til verks, sagði hún, og ekki hefði hún gifst þángað þó það hefði átt að drepa hana. En hún hafði einlægt gaman af að gantast við kallaskrattana sem stóðu einsog hlandkönnur uppá skráþurri bæarstéttinni meðan lá á kviði í forinni hjá ferðamönnum viðmælendum þeirra. Jæa nema einusinni er það sem oftar ég á leið um hríssbrúarhlöðin á þeirri rauðu minni og kallarnir uppá stéttinni einsog fyrri daginn. Veit ég ekki fyren kallskrattinn hann Ólafur heitinn segir sæl vertu. Var hann þó ekki vanur að tala af sér við gesti hann Ólafur heitinn. Hún Fimmbjörg, segir kallinn, því hann sagði alla tíð Fimmbjörg; hún Fimmbjörg var eitthvað að tala um það á dögunum að hún Gunna stóra skyldi koma inn hérna næst þegar hún ætti leið um. Guðrún Jónsdóttir segir að sér hafi þótt þetta ögn skrýtið. Frá því hún var ángi, sagði hún, var hún einlægt að eiga hér leið um og aldrei hafði komið fyrir að henni væri boðið inn. Af því leiddi að hún hafði aldrei séð hana Finnbjörgu heitina. Hvernig gat kararkellíng vitað að persóna einsog hún Gunna sem það kallaði stóru væri til? Skyldi konugarmurinn ekki hafa haft um eitthvað þarflegra að hugsa en hana Gunnu þessa stóru, og búin að liggja fyrir dauðanum í átján ár (NB einlægt voru árin sögð átján í sveitinni og þeim gerði hvorki að fjölga né fækka þó lega konunnar leingdist um eitt ár á ári). Jæa nema kallarnir segja ég skuli vara mig á vilpunni í bæardyrunum og sagt er að sé afgamalt dý og ku hafa verið skvett í það úr koppunum á sturlúngaöldinni. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Nema þegar komið var innarfyrir þennan botnlausa vilpuskratta og maður var úr lífshættu, þá var farið að þreifa sig í gegnum moldargaungin sem láu í átján hlykkjunum og kolníðamyrkur þó náttúrlegana rataði heimafólkið út og inn um þennan fjanda einsog á ljósum degi; þángað til komið var að skellihurð sem rann á kljásteinsvölu í snæri og skall aftur sjálf án þess að gera skell. Og þá var ég nú komin í bastofuna þar sem fólk sagði að aldrei væri boðið neinum inn. Nú skýrir Guðrún Jónsdóttir frá því að þegar inn var komið úr þessum bölvuðum ekkisens rángölum, þá er þarna þriggja stafgólfa bastofa: tvö stafgólfin með moldargólfi milli setstokka, og glönsuðu og sá hvergi örðu, en fremsta stafgólfið, næst gaflglugganum, var á palli; þar stóð rúm konunnar undir súð svo hún hafði birtuna yfir vinstri öxl sér þar sem hún sat uppvið dogg og var að prjóna. Hún liggur sumsé þarna í bólinu konuskepnan, og búin að liggja í átján ár, þessi amúleri sem ekki er að furða að vera gift honum Ólafi sáluga; eða réttara sagt hún sat uppí birtuna og var að bera sig að prjóna hyrnu. Guðrún Jónsdóttir sagði hún hefði litið kunnuglega til sín og lagt frá sér prjónana á sylluna fyrir ofan sig, og so segir hún sisona við mig, og gat látið það vera blessuð konan, kondu sæl Gunna mín og vertu velkomin. Hafðu sæl sagt það, segi ég. Það var einsog við værum aldavinkonur og hefðum ekki sést síðan í fyrra. Fjandakorninu af mér sem ég sá nokkuð væri að kellíngunni, asskotafþví hún var meira farlama en ég, utan ögn kreptir fíngurnir á henni en ekki mér af þessu benvítis prjónapoti. En ekki sá ég á henni fæturnar, vel má vera þær hafi verið máttlausar á henni en ekki mér. En furðu slétt sýndist mér hún á vángann og vera gift honum Ólafi heitnum; lángtum ýngri en karlskrattarnir synir hennar. Hún var sosum ekkert upprifin við fólk konukindin, ekkert flas á henni. En hún var þægileg aumínginn sá arna; merk í tali. Kanski eitthvað komið fyrir hana einhverntíma og byrjað að svía núna. Það var einsog að vera komin til huldukonu. Og so kallar hún á Gunsu dóttur sína sem ætlaði að fara að gifta sig suðurmeð sjó og segir við hana, farðu fljótt og ná í kaffivatn, því þetta var um miðaftanskaffið; og so kemur Gunsa með ekta rjómakaffi maður guðs í rósóttum bolla allaðeinu og hjá huldufólki. Sjálf fór hún oní koffortið fyrir framan sig og náði í sykrið og þar var nú ekki verið að frambera grjóthart steinsykrið, heldur ekta melís einsog hann séra Jóhann fékk á sunnudögum. Það er ekki svo oft sem hnífurinn minn kemur í feitt. Og þó var nú þetta ekki nema byrjunin, því so komu glóðheitar glomsuflennurnar þykkar og matarmiklar og so dísætar að þær migu í munni, ja þar var nú ekki beinakexið. Maður skyldi ekki halda maður væri í Mossvellssveitinni. Mér duttu helst í hug útilegumannabæirnir góðu í Ódáðahrauni sem það var að segja manni af þegar maður var krakki. Segi ég nú sisona við konuna, svei mér sem þú ert bara ekki orðin nokkuð brött. Það tosast, segir konan. Og tekur inn þau réttu meðul, ekki er að spyrja að því, segi ég. O ekki hef ég nú enn þurft að fara í taðkúr hjá honum Fúsa gamla hérna. Afturámóti er ég einlægt að fara með vísurnar eftir hann séra Jón heitinn Þorláksson á Bæsá ömmubróður minn. (G. J.) Já það er alténd munur að kunna góða vísu, segi ég; einkum ef maður fer með hana í réttan tíma. Enda fæ ég ekki betur séð en þú farir bráðum að komast á skrið. Ekki gefur konan mikið útá það en segir við stúlkuna eftir stundarkorn: Eingin furða þú sért hissa að svona manneskja einsog ég skuli vera farin að gera boð fyrir fólk. (G. J.) Ja þar komstu með það kelli mín, er nú stóra Gunna orðin fólk! Konan heyrði aungvan hégóma leingur né soleiðis hjal sem maður hefur uppi fyrir siðasakir, heldur tekur hún til orða líkt og huldukonurnar voru vanar þegar þær voru að tala fólk til hér áður fyrri: Ég hef ævinlega fylgst með þér Guðrún litla síðan þú varst telpa. Nú skal ég fara með vísu fyrir þig og þú skal læra hana og hafa hana yfir ef þú skyldir einhverntíma leggjast. Blekberi spyr Guðrúnu (fjörutíu árum síðar): lærðirðu vísuna? (G. J.) Æ asskota korninu. Og þó. Spurníng: Var það góð vísa? (G. J.) Æ það var einhver bannsettur sultarjarmurinn úr kallskrattanum þarna fyrir norðan. Skáld eru einatt að væla útaf því að veröldin sé ekki nógu góð handa þeim og það helgast af því þeir fara ekki í mógrafir. Vonandi fer maður að skilja ljóðmæli þegar maður er lagstur í kör. En vísurnar verða þá að vera dálítið glaðlegar einsog til að mynda vísan hans Gröndals um kallinn í Spónsgerði. Nú heldur hríssbrúarkonan áfram að hvísla einsog huldukonur voru vanar og segir svo við stúlkuna: Ég hef heyrt það sé óhætt að trúa þér fyrir smámunum. Lítið hefur nú reynt á það, segist Guðrún Jónsdóttir hafa sagt, en hún lækkaði aldrei róminn sjálf þó aðrir hvísluðu, en hélt sinni föstu hæð. Finnbjörg heldur áfram að hvísla: Ég er einlægt að vona og biðja að ég fái að fara að fara. Þetta er farið að dragast nokkuð leingi þyki mér. Það er ekki leingur hald í mér. Ég er laungu hætt að kannast við sjálfa mig. Lítið var, lokið er. En ég geymi hérna lítilræði. Nú fer konan að róta í bosinu til höfða sér og finnur þar loksins eitthvert fjölmúlavíl og er hnýtt innaní skauta úr svörtu gljásilki. Það var þetta voðfelda silki sem tekur sig jafnóðum og það er kruklað, og kom með skipunum hér fyr meir, og ekki neitt húmbúkk og snuðirí einsog það sem er að flytjast núna. Og dregur nú ekki dauffíngruð konan upp kaleikinn úr Mossvellskirkju og hananú. Þegar Guðrún Jónsdóttir var að því spurð, hvort hún væri viss um að þetta hefði verið sá rétti kaleikur og hvort það hefði ekki eins getað verið vitlaus kaleikur, þá vissi hún varla hvert hún átti að komast: það oft góndi ég krakkinn á árans krjádelið a-tarna þángaðtil ég steinsofnaði þar sem hann stóð uppá altarinu undir messu og glampaði á hann sólin! Ég meira að segja saup úr honum þegar ég var tekin. Já var hann ekki þarna lifandi kominn fjárinn a-tarna á minn sann! Guðrún heldur áfram og blekbóndi skrifar hjá sér: Einhvernveginn hafði kellíngarkjökrið tekið það í sig að það eina gerpi í Mossvellsdal sem ekki átti einusinni kistilgrey með handraða, hvað þá heldur nokkuð til að láta oní kistil eða geyma í handraða, þessi bjálfi segi ég, átti hún nú að fara að geyma dýrgripi og hilma yfir með þjófum, já og höfðu meira að segja stolið úr kirkju, sem er tvöfaldur þjófnaður og verður að forsvara bæði fyrir kindaskömmunum hér og gamla manninum uppá lofti. Þú ert ekki alminleg Finnbjörg mín, segi ég, ef þú heldur ég fari að leggja krumlurnar að fígúruverkinu því arna. Ég verð kölluð fyrir sýslumann. Þeir setja mig í tukthúsið. Og hvur á að passa þetta kaleikskrifli þegar búið er að setja mig í steininn? Hann Kolbeinn í Kollafirði og þeir stóru hérna lamma sig auðvitað undir eins með þetta í Lágafellskirkju. Gamli maðurinn á loftinu hefur nú einhverntíma séð annað eins og hann Kolbein okkar og þá stóru hérna, segir Finnbjörg húsfreya. Ég tek það ekki í mál, segir Guðrún Jónsdóttir. Asskotinn fjarri mér. Fyrr skulu allar þúfur hér í Mossvellsdal til himins hoppa og allar gjótur til helvítis niður síga, ég segi það satt. Þú skalt láta þessa silkihandlínu fylgja honum, segir Finnbjörg Finnsdóttir. Hún er úr búinu hennar ömmu minnar sálugu sem var systir þjóðskáldsins á Bæsá hans séra Jóns heitins Þorlákssonar. Hér tekur Guðrún Jónsdóttir í nefið til merkis um að sagan er á enda. Mér undirrituðum fanst sagan um þessar tvær innansveitarkonur, sem aðeins einu sinni hittust að máli og aldrei síðan, detta hálf botnlaus niður. Miklar utanveraldarkonur voru þessar konur. Ég beið og beið og það kom ekki meira. Þú gleymdir að botna söguna, segi ég að lokum. Hvernig fór? Fór? Það fór sosum aungvanveginn. Það fór einsog það fór. Náttúrlega tók ég við kaleiksgreyinu. Spurníng: Og ætlar að halda honum það sem eftir er? Ætli honum sem á hann verði skotaskuld úr því að nálgast hann þegar honum líst, svaraði Guðrún þessi Jónsdóttir.