FJÓRTÁNDI KAPÍTULI
Eingin klukka fanst
Þrír snikkarar að sunnan brutu niður Mosfellskirkju með kúbeini. Þeir stökkuðu brakið ásamt með lausadóti kirkjunnar fyrir utan sáluhliðið. Þessu verki var lokið á dagstund milli miðmorguns og nóns. Aungvir formálar hafðir þegar kirkjan var tekin frá börnum sínum. Ekki eingáng þeir tveir menn voru nær er síðastir höfðu skrifað undir skjal. Haft er eftir einum guðhræddum manni að sjaldan hafi lausnarinn séð fyrir því haft að jafna svo vesalli kirkju við jörðu. Af hverju mátti hún ekki tægjast upp fyrir vindinum? Þá voru og þeir menn sem sögðu að með því gleymst hafði að afvígja kirkjuna mundi hún standa eftir sem áður uppá hól í túninu á himnum. Kátir menn ortu svo um þetta málefni:
Í brakaþerri á háum hól
himins frægu túna
brosir mæt við morgunsól
Mosfellskirkja núna.
Liðugt jórtra lömbin þrjú
í lausnarans túni fínu.
Gaf þau híngað Guðrún sú
er gáir að brauði sínu.
Svo ég haldi áfram að sítéra í þessa konu, þá sagði hún mér að allir þálifandi menn sem mannsmót var að hér í plássi, þeir vildu auðvitað hafa Mosfellskirkju og akkúrat aungva kirkju aðra. Hjá sumum varð að taka kirkjugjaldið lögtaki á hverju ári eftir að kirkjan fluttist að Lágafelli; svo og legkaup þángað. Margir komu aldrei í kirkju síðan er kirkja var tekin niður á Mossvelli, sagði Guðrún stóra, og þartil þeir voru bornir í Lágafellskirkju í fjórum skautum og út aftur í ókunnan garð. Einstöku fór að kaupa Frækornsblað af avintistunum. Vissi ég um þá sem geingu sig út að Mossvelli í góðu veðri á sumarkvöldi, og uppá hólinn og settust í kirkjugarðinum og lásu á gömlu steinana, einkum og sérílagi á helluna hans séra Magnúsar heitins Grímssonar skálds, fyrrum prests á Mossvelli, sem var svo falleg á henni skriftin; það var hann sem gaf út söguna af Mjallhvít og dvergunum sjö og er so dáfalleg saga. Allareiðu þegar ég var þar var farinn að vaxa mosi oní stafina svo það varð að klóra í þá með nöglunum til að geta lesið. Nú er hellan laungu komin undir mosa einsog hún leggur sig, en ég veit hvar hún er, sagði Guðrún. Það var hann sem mælti eftir þá austanmenn sem voru að fara í verið og urðu úti á Mossvellsheiði um jólin í Jólaveðrinu Mikla. Ég á það uppskrifað því mér finst nú einlægt þetta sé mín heiði.
Spurníng: Ef allir hefðu nú skrifað undir með ykkur Ólafi gamla á Hrísbrú og allir hefðu hótað að fara í stríð, mundi þá ekki biskupinn hafa látið sig; ekki síst þar sem landshöfðínginn var orðinn linur?
(G. J.): Æ héld þeir hefðu ekki farið lángt í stríð, gjúgurnar a-tarna, ekki maður í nokkurri mannskömm nema honum Ólafi heitnum á Hrísbrú. Hann vildi berjast einsog maður kalltuskan. Hann fann bara aungvan til að berjast á móti sér, reyndar aungvan með sér heldur nema aumíngjann hann Boga gamla son sinn sem var bara með hrífu. Allir voru að biðja og vona að það yrði stríð en manndáðin var nú ekki meiri en a-tarna.
Nú mundi margur hyggja að sú saga væri á enda kljáð og ofangreind kirkja hefði flust til himna, í það græna tún, fyrir fult og fast. En það var nú síður. Sagan er ekki nema hálfsögð enn. Nú hefst raunar sagan.
Einhver spyr uppúr eins manns hljóði vorið 1888: Hvað varð af kirkjuklukkunni á Mosfelli? Eingin klukka fanst í drasli því sem borið hafði verið útá hól með brakinu úr kirkjunni. Smiðirnir voru spurðir hver þeirra hefði tekið niður klukkuna? Einginn sagðist hafa hruggað við klukku. Nú er farið að þvarga: Var þá kanski eingin klukka?
Fyrsti snikkari: Víst var klukka.
Annar snikkari: Ja ég sosum bara man það ekki. Líkastil hefur nú verið klukka. Ellegar barasta það var eingin klukka.
3ðji snikkari: Anskota korninu það var nokkur einasta djöfuls klukka.
Þegar búið var að þvæla mennina ögn í viðbót voru allir orðnir tvísaga. Þeir fóru hverja botnveltuna eftir aðra. Loks var hver í sínu lagi búinn að tala með og móti öllum hugsanlegum líkum í málinu og halda því fram undir eiðstaf að bæði hefði verið klukka og ekki klukka.
Ný spurníng: En kaleikurinn og það drasl?
Svar: Það má einn annar vita.
Spurníng: Ja hver er sá einn annar?
Orðvondi snikkarinn: Hver sá einn annar er? Er það ekki anskotinn?
Töluðu menn svona ljótt í dentíð, spyr sá sem var að tala við G. J.
Guðrún Jónsdóttir: Sisona hafa þessi karlmannsgerpi einlægt látið til að herða sig upp af því þetta eru ekki menn.
Seinast kom uppúr dúrnum að séra Jóhann hafði vafið höklinum og rykkilíninu utan um altarisbríkina armstjakana og patínuna og sent honum séra Þórarinum heitnum í Görðum böggulinn; hempunni hélt séra Jóhann eftir af því hann átti hana sjálfur. Nú sendir Þórarinn prófastur skilaboð um að kaleikurinn hafi ekki verið í því dóti sem var sent honum. Hvar var kaleikurinn?
Ólafur á Hrísbrú mælti svo við Kolbein í Kollafirði þegar þessi mál bar á góma: Það var sosum rétt eftir þessum anskotum að stela inventarinu úr Mosfellskirkju á endanum. En vel skil ég hann séra Jóhann, rummúng einsog hann, að hann skyldi ekki leggja sig niður við að stela soleiðis undirskál einsog patínunni.
Hvað sem kaleiknum leið, þá var það í almæli í sveitinni að nóttina eftir að Mosfellskirkja var rifin, hefði séra Jóhann afhent Ólafi á Hrísbrú klukkuna úr kirkju þessari og ráðlagt honum að dángla í hana sér til afþreyíngar þegar honum leiddist. Ekki sel ég sögu þessa dýrara en ég keypti, en vel hefði séra Jóhann getað látið aftur annað augað fyrir guðsástarsakir í því máli einsog fleirum.