ELLEFTI KAPÍTULI Sagan af brauðinu dýra
29unda júní sama vor og Mosfellskirkja var rifin mátti lesa eftirfarandi grein undir fyrirsögninni „Saga af dýru brauði“ í vikublaðinu Öldinni, og má gánga þar að henni ef einhver nennir að fara á bókasöfn og lesa gamlar blaðagreinar: Það varð til tíðinda í Mosfellsdal fyrir nokkrum dögum á vorkvöldi að stúlka tvítug, Guðrún að nafni Jónsdóttir, vinnukona prestsins að Mosfelli sem nú er reyndar hættur störfum og búið að rífa kirkjuna, þessi stúlka var send að sækja pottbrauð úr seyðslu í hverasandi fyrir sunnan ána, en þar átti Mosfellskirkja hver og var siður að baka þar brauð prestsins í heitum sandinum. Stúlkan hafði með sér í tréskjólu annan rúghleif hráan að skifta um brauð í sandinum, því það var vani þegar fullbakað brauð var sótt, þá var annað hrátt grafið í sandinn um leið. Þetta voru svört brauð og vanalega 6 pund á þýngd. Nú er þess að geta að á var þoka dimm þó bjart væri á nótt þetta vorkvöld. Þegar stúlkan hafði skift um brauð og var farin á stað heim með seydda brauðið í tréskjólunni, og ætlar heim á prestssetrið sömu leið og hún hafði farið mörg hundruð sinnum áður, þá missir hún áttanna, og í staðinn fyrir að gánga beint í norður einsog leið liggur, þá geingur hún beint í suður og lendir í mýrlendu skarði milli tveggja fjalla þar sem hún kannast ekki við sig og þræðir sig meðfram lækjum, en einlægt uppávið, uns hún er komin á heiðar víðlendar og eyðilegar, óbygðar af mönnum, sem liggja til Mosfellskirkju, og eru afréttir margra sveita, og er vant að tala um óbygðir þessar í einu lagi undir nafninu Mosfellsheiði. Leingi vel heldur stúlkan að hún sé á leið heim til sín á prestssetrið og hálfkannast við kennileiti í landslaginu sem henni finst að sanni það; uns þar kemur að hún finnur að hún er farin að tvíkoma að sama steini, sömu lækjarbugðu eða sömu þúfu, þá fer henni ekki að standa á sama. Er nú ekki að orðleingja það, nema stúlkan er að villast þá nótt alla á heiðum uppi fjarri mannabygð. Um þessar mundir var verið að rífa gömlu kirkjuna á Mosfelli, heldur vikublaðið Öldin áfram, og voru komnir til þess smiðir snemma dags, og var nú mikið um að vera, prestsfrúin farin og presturinn að búa sig undir að fara líka, og voru kanski ekki margir sem tóku eftir því að það vantaði brauð. Þegar það uppgötvaðist að einnig vantaði stúlku, þá grunaði aungvan að hún væri farin á fjöll. Var haldið í fyrstu að hún væri í vinakynni hjá skyldmennum niðrí sveit. Við eftirgrenslan kom þó í ljós að svo var ekki og meðþví þokum létti ekki af til fjalla þótti einsýnt að stúlkan hefði vilst. Á þriðja degi eru gerðir út leiðángrar úr bygðinni að leita stúlku þessarar. Að morni fjórða dags fundust spor hennar í flagi lángt uppí óbygðum og nær hádegi fanst hún sjálf sofandi uppá lýngvöxnum hól nærri svonefndum Heinglafjöllum. Í moldarflagi skamt í burtu hafði hún skrifað fángamark sitt með fíngrinum í moldina, G. J., sumir segja ásamt broti úr erfðaskrá. Um þessar mundir var ögn byrjað að grisja gegnum þokuna. Tveir bændur nágrannar stúlkunnar komu að henni þar sem hún lá sofandi með brauðskjóluna við hlið sér og höndina fastkrepta um kilpinn. Bændur þessir vekja nú stúlkuna af svefni. En svo brá við loks er þeir feingu vakið hana, þá kannaðist hún ekki við þessa menn en spratt upp felmtruð með ópum og tók síðan til fótanna sem harðast hún kunni með brauðskjóluna í hendinni. Svo vilt var hún enn að ekki aðeins fanst henni sem hún hefði aldrei áður augum litið þessa góðkunníngja sína, heldur hugði hún þá vera útilegumenn og ræníngja sem komnir væru að ræna hana brauðinu og drepa hana. Og þó svo færi að lokum að þeir drógu hana uppi og höfðu hendur á henni, þá snerist hún til varnar gegn þeim og varð ekki aflsvant eftir þriggja sólarhrínga villu. Þess er skylt að geta að Guðrún þessi Jónsdóttir er í Mosfellsdal talin karlmannsígildi og vel það í hverri raun, enda hafði hún mennina tvívegis undir áðuren þeir feingu yfirbugað hana þar á heiðinni. Síðan leiddu bændur stúlkuna grátandi yfir Mosfellsheiði þvera uns þau voru komin niður undir Bríngurnar efsta bæ í Mosfellsdal, þá var byrjað að létta þokunni þó enn sæist ekki til lofts. Ekki íþætti stúlkan mönnum þessum þó þeir spyrðu um farir hennar, né vildi hún þiggja mat af þeim, sagðist hafa drukkið nóg rigníngarvatn af steinum á heiðinni í þrjá daga og þrjár nætur og vera mett. Þegar þau voru í heiðarbrúnum var komið glaðasólskin, og sér á haf út. Smám saman þornaði á stúlkunni eftir þriggja sólarhrínga bleytu af þokusuddanum, en skóm og sokkum var hún búin að týna. Fer hún nú að kannast við menn þá er tekið höfðu hana til fánga og sér að þetta eru nágrannar hennar og vinir. Brauð það er stúlkan hafði verið send að sækja var óskert í tréskjólunni.