TÍUNDI KAPÍTULI Úttekt kirkjunnar. Bænarskrá
Úttekt á kirkju þeirri sem hér hefur lítillega verið í umræðu er gerð að skipan prófastsins í Görðum þessa sömu daga sem nú var frá sagt, á stekktíð 1887. Úttektargjörníngurinn er undirskrifaður af sóknarnefndarformanni Kolbeini Eyólfssyni og tveim öðrum, og verður fundinn í bréfum Kjalarnessprófastsdæmis frá þeim tíma. Hefur Kolbeinn bóndi haft ærnu í að vefjast aftur og fram vegna kirkju þessarar um sumarið. Kirkjan er í skjalinu talin 11 álnir og 11 þumlúngar á leingd innan gafla, og losar það eftir nútíma reikníngi 7 metra. Breidd mælist 9 álnir og 12 þumlungar innan veggja. Ytrabyrði er talið hálfónýtt sökum fúa, undirstokkar allir fúnir, þiljur ófúnar að innan nema fremsti biti. Ornamenta: altari (vantar læsíngu); prédikunarstóll; gráður; stöpull undir skírnarfonti; altarisbrík með upprisu lausnarans; hökull borinn, úr flaueli; eitt rykkilín; altarisklæði lítilféggleg; altarisbrúnir fornar og fánýtar; silfurkaleikur gyltur innan ásamt með gamalli patínu úr sama; korporaldúkur forn; 2 armstjakar með tveim pípum hvor, úr kopar; glerhjálmur gallaður; grafminníngaspjöld tvö; saungtafla með lausum stokki; skírnarfontur úr látúni, beyglaður; graftól þolanleg; klukka heil. Sjóður kirkjunnar er talinn samkvæmt sjóðsbók tæpir 2000 ríkisdalir og hefur aukist af jarðarafgjöldum undanfarin ár en aungvu verið kostað til viðhalds á staðnum. Líður nú þetta sumar svo ekki ber frekara til titla né tíðinda í málum kirkju þeirrar er nú var lýst. Uns upp kemur orðarymtur um það fyrir sunnan að nokkur óklárindi muni vera komin upp í Mosfellsdal. Gróa á Leiti er þar ekki ein á ferð, heldur haft fyrir satt að bréf tvö undirrituð af öllum sóknarbændum þar efra séu fram komin á hæstu stöðum, annað til biskups, hitt til landshöfðíngja. Þessi bréf eru sögð að því leyti einstök og sérleg, að þó þau séu undirskrifuð af sömu mönnum um sama efni halda þau hvort sína meiníngu í einum og sérhverjum púnkti líkt og þar væru komnir tveir harðsnúnir flokkar á vettváng hvor gegn öðrum. Kemur í ljós við samanburð skjalanna að sérhvert konubarn í Mosfellsdal heldur tvær andstæðar skoðanir í þessu máli, til reiðu að berjast fyrir báðum þessum málstöðum, sinn daginn hvorum, af sannfæríngu og hörku sem ekki þolir málamiðlun. Er það sannast mála að sá sem fer að rýna í bréf og gjörnínga þessa máls, svo í skjalasafni Kjalarnessþíngs sem og biskupsembættisins að sínu leyti og landshöfðíngjans yfir Íslandi hinsvegar, hann kemst varla hjá því að nudda sér um augun einusinni eða tvisvar. Hið síðara bréf mosdæla, landshöfðíngjabréfið, er ekki sent opinberlega biskupi til umsagnar fyren 15da desember um veturinn. Í umsögn landshöfðíngja, þá er hann tekur saman aðalinntak þessa bréfs, örlar á þeirri hugmynd mosdæla, að hann, landshöfðíngi, sé fulltrúi íslensku þjóðarinnar gagnvart konúnginum og kirkjuyfirvöldunum, og þessvegna festi nú alþýða von sína á hann þegar alt um þrýtur. Að sínu leyti telur landshöfðíngi í skýrslu sinni til biskups ekki vafa á því að heil kirkjusókn standi að baki umleitan sem varðar alla sóknarmenn jafnt. Ýar landshöfðíngi að því, að þó menn þessir hafi áður verið beittir öðrum fortölum í málinu, og aðhylst af þeim sökum andstæðar skoðanir um hríð, þá sé hverjum manni hér á landi frjálst að skifta um skoðun, hverjum í sínu lagi heiðarlega, svo og mörgum í hóp ef þeir vilja og eftir því sem þeirra skynsemi býður þeim þá er þeir hafa athugað málavöxtu af gaumgæfni undir sjónarhorni síðar framkominna gagna; svo og þeir er kristilega samvisku telja sig hafa, þá skal sú respektérast, einkum ef sannast að fyrir hendi sé. Meðþví vandkvæði hafa myndast af þeirri aðferð að leysa mál safnaða í blóra við safnaðarmenn sjálfa eða gegn vilja þeirra, þá stíngum vér uppá því segir landshöfðíngi, að hrapa ekki að lausn þessa máls. Í annan stað virðist landshöfðíngja fráleitt að bændur í Mosfellskalli séu hvattir til að leggja fram vinnur sínar kauplaust til að reisa nýa kirkju utan fornra sóknarmarka sinna. Það er óvarlegt í hverju máli að fara að vekja upp aukaatriði sem henta mótpartinum til að tortryggja merg málsins. Lætur landshöfðíngi orð liggja að því að vinnukvaðir til nýrrar kirkjusmíði kynnu af bændum að útleggjast svo sem væri verið að mjúklæta þá. Væri og óráð að hafa hátt um fjárupptöku á sjóðkorni Mosfellskirkju til að afhenda væntanlegri Lágafellskirkju sem að vísu enn var eigi til. Betra að geyma fé þetta í vörslu biskupsembættisins fyrst um sinn. Að lokum ítrekar landshöfðíngi þá skoðun að vel megi skjóta máli þessu á frest uns tíminn hafi leitt heppilegri lausn í ljós. Ekki verður ljóst af skjalasöfnum embættanna hvort biskup hafi svarað bréfi landshöfðíngja um Mosfellskirkju. Eftir að landshöfðíngi hefur sent biskupsembættinu afrit af bréfi mosdæla hinu síðara, vitnar biskup samt stuttlega til þess á einum stað í bréfi sínu til prófasta í Kjalarnesþíngi og enn er til; kallar það „bænarskrá mosdæla til landshöfðíngja“. Þetta var á síðustum biskupsárum Péturs biskups Péturssonar sem þá var einn auðugastur maður landsins og postilluhöfundur svo mikill að telja má að hann sé einn þeirra fáu íslendínga sem skilið hafi guð frá rótum. Í bréfi til prófasts Kjalarnessþíngs kemst herra Pétur Pétursson svo að orði að bréf mosdæla til landshöfðíngja lýsi aðeins „blindri þrákelkni“. Ekki víkur biskup að því að samtaldir bændur hinnar fornu mosfellssóknar hafi undirskrifað skjalið. „Foríngja þessa mótþróa“ telur biskup Kolbein Eyólfsson sóknarnefndaroddvita í Kollafirði, sem þó fám dögum áðuren hann setur nafn sitt undir landshöfðíngjabréfið hafði í öðru bréfi til biskups lýst sig gagnstæðrar skoðunar um sameiníngu kirkna. Ólafs á Hrísbrú er að aungu við getið í þessu máli, eftilvill þótti hann ekki til þess lagður að verða borinn í penna á æðri stöðum. Um haustið var tekið að grafa fyrir grunni Lágafellskirkju þegjandi og hljóðalaust, sömuleiðis væntanlegs prestsseturs að Lágafelli. Snemma vors komu smiðir að sunnan og reistu laup hinnar nýu kirkju.