TÓLFTI KAPÍTULI Mosfellskirkja fær arf
Gyra et reversa me per circuitum. Konu þessa Guðrúnu Jónsdóttur úr Mosfellsdal, hana þekti sá blekberi sem nú dýfir í byttu, í þann tíð hann var mjólkberi í ofangreindu bygðarlagi og lagði á stað með mjólk í pjátursbrúsum klukkan fjögur á nóttinni að selja fyrir sunnan en var að reyna sig sem íhlaupamaður í kirkjusaung á sunnudögum. Jafnvel þá var stúlka þessi laungu orðin roskin. Áratugum síðar hittir þessi sami mjólkurpóstur sömu stúlku aftur og spyr: Þótti þér ekki súrt í broti Guðrún mín þegar ekki var annað sýnna en þú mundir verða að snúast í hríngi á Mosfellsheiði það sem eftir væri ævinnar? Þá segir konan: Nú, var það ekki þetta sem hann séra Jóhann var einlægt að burðast við að boða: snúðu mér í hríng og snúðu mér svo aftur í hríng. Um aldir alda. Ég viltist í þoku niðrí sveit á miðkudagskvöldi, fór í suður í staðinn fyrir að fara í norður og síðan til austurs í staðinn fyrir að fara í vestur. Spurníng: Varstu ekki búin að gefa upp alla von. Svar: Ég vonaði minstakosti að aldrei færi svo ég næði ekki seinniblessun í Mossvellskirkju á sunnudag. Náðirðu því, spyr ég. Það náðu aungvir því, hvorki lífs né liðnir. Kirkjan á Mossvelli var sumsé rifin dagana sem ég var í villunni. Varstu ekki ógn hrædd? Svei því, hvað ætli ég hafi verið hrædd, það var sosum ekki mikið að hræðast. Það gat ekki dimmað meira á, minstakosti ekki um hávorið. Það setti kanski ögn að mér fyrstu nóttina af því ég var gagndrepa. En daginn eftir hlýnaði mér og ég hló að sjálfri mér að vera einlægt að fara í hríng. Kvöldið eftir hélt ég að ég væri orðin galin af hríngsnúníngi. Í sólarupprás morguninn þaráeftir djarfaði fyrir einhverju glætugreyi og var þó fljótt að hverfa aftur. Svo ég held áfram að hríngsóla þann dag líka. Ég hef aldrei vitað annan eins bjálfa og mig. Spurníng: Er það satt að þú hafir gert erfðaskrá í þokunni? Það var sosum ekki mikla erfðaskrá að gera, segir Guðrún Jónsdóttir. Ég átti þrjár lambkreistur. Það var alt og sumt. Jæa nema fyrstu nóttina hét ég á Mossvellskirkju að gefa henni lamb ef ég yrði mér ekki til skammar fyrir guði og mönnum með því að verða úti uppá holti um hávorið. Heldurðu að það hafi gagnað? spyr ég. Konan: Hvað ætli það hafi gagnað. Það gagnaði ekki nokkurn skapaðan hlut. Auðvitað var Mossvellskirkja ekki það heimsk að fara að kaupa af mér lamb. Næstu nótt gaf ég Mossvellskirkju lamb í viðbót án þess að ætlast einusinni til að fá líftóruna í staðinn. Nú fór ég hálfpartinn að gera ráð fyrir að kanski næði ég ekki heim, og hvurnin átti kirkjugreyið þá að vita að ég var búin að gefa henni lömbin? Ef ekki er skrifaður stafur, og ég kemst aldrei heim, hver hreppir þá ekkisens lambakreisturnar; því aungvan átti ég erfíngjann. Síðustu nóttina mína tók ég það til bragðs að ég skrifaði með puttanum í moldarflag: „Mossvellskirkja á lömbin“. So setti ég fángamarkið mitt undir: G. J. So fór ég uppá hól þar sem óx lýng og mosi og var fjarska ánægð, því nú var ég búin að gefa öll lömbin mín skriflega án þess að eiga von á að fá nokkurntíma nokkuð í staðinn. Ég var fegin að Mossvellskirkja skyldi hafa feingið lambaskjáturnar, því hún er og verður mín kirkja. Og með það fór ég að sofa. Þá lángaði piltinn til að vita hvernig á því stóð að konan skyldi taka til fótanna og flýa þegar menn komu og vöktu hana. Æi ég svaf svo vel, sagði konan. Aldrei á minni hundstíð sofið betur. Vissi ekki í þennan heim né annan, skepnan mín. Þeir gerðu mér þann grikk að rífa mig upp. Var nokkur hæfa í því að þú hefðir tekist á við þessa góðu vini þína og nágranna þegar þeir voru loksins búnir að finna þig og ötluðu nú að fylgja þér heim? Ég var eitthvað skrýtin þegar ég vaknaði, sagði konan. Ég kannaðist ekkert við nefin á kallagreyunum. Hvaðan veist þú þetta geyið mitt? Hvur er með svona kjafthátt hér í sveitinni? Og vildir ekki einusinni hjá þeim kaffi og meðþví, hef ég líka heyrt. A svei því. Varstu ekki orðin ógn svaung? Héld maður þurfi ekki einlægt að vera að éta, sagði konan. Það er ósiður. Að lokum spurði ég konuna að því sem mörgum hefur þótt nokkuð sérkennilegt í þessari sögu, af hverju hún hefði aldrei brotið sér mola af þessum pottbrauðshleif sem hún hélt í hendinni á þessu lánga ferðalagi nótt og dag yfir fjöll og firnindi. Svona brauð sem vegur sex pund ætti að endast manni í nesti heila viku eða jafnvel hálfan mánuð, og leingur ef vel er á haldið. Mikið var konan undrandi á þeim fjarstæðum sem gátu runnið uppúr þessu piltkorni; lá við það fyki í hana: maður étur nú líklega ekki það sem manni er trúað fyrir barnið gott. Var þér þá sama hvort þú lifðir eða dóst, bara að brauðið kæmist af, spyr ofangreindur mjólkog blekberi. Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir, segir þá konan. Spurníng: Getur maður aldrei orðið of húsbóndahollur? Konan spyr á móti: getur nokkur nokkurntíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér? Varðstu samt ekki fegin að vera til þegar þú sást sólina aftur, Guðrún mín? Konan sagði að víst þakkaði maður fyrir að fá að halda tórunni; en maður þakkaði líka fyrir að fá að losna við hana. Lángömmu minni gekk feikn illa að deya, sagði hún. Á endanum varð að hvolfa yfir hana potti. En þegar þau komu úr villunni og náðu ofaní heiðarbrúnir, þá var þokan horfin, og heimurinn var þarna aftur með sólinni og öllu saman. Í þann tíð voru menn ljóðrænni í tali en nú, og ég spyr konuna hvort það hafi ekki verið „undursamlegt“. Ég er hræddur um að hún hafi ekki skilið orðið. Meðan hann var að rofa til sagðist konan ekki hafa kannast við sig leingi vel; hvað var hún að flækjast með þessum tveim körlum? Altíeinu stendur veröldin uppljómuð. Þokunni var aflétt. Það fyrsta sem stúlkan kannaðist við var himinninn. So sér hún sjóinn lángt burtu og þekti að það var hann. Síðan sér hún Mosfellsdal sveitina sína breiða úr sér einsog vant er fyrir neðan heiðina. Og loksins kannast hún við nefin tvö á þessum köllum. Og ég veit ekki fyr, segir konan, en mig er farið að lánga í kaffi. Undirritaður hefur oft á síðan hugsað um þetta brauð; margan mundi lánga í svona brauð. Hvað varð um brauðið, spyr ég. Æ ég sosum man það ekki, sagði þá stúlkan Guðrún Jónsdóttir og var orðin gömul kona, föl á vángann. Ætli það hafi ekki verið gefið hrossum. Klárarnir stóðu glorhúngraðir í stertabendu á hlaðinu og biðu eftir því það yrðu bundnir uppá þá viðirnir úr Mossvellskirkju.