FIMTI KAPÍTULI Erfiði óþekt
Sjaldan hitti svo á hrísbrúínga að þeir væru ekki í miðju bústángi, ýmist að fara á fjárhúsin eða koma af þeim með mosa í skegginu, láta í meisana, gera við reipi í skemmudyrum, kanski bánga eitthvað. En aldrei voru þeir svo við bundnir að þeir hefðu ekki tóm til að skrafla við aðkomumann ofanúr Kjós um heimtur hans af fjalli, eða spyrja borgfirðíng um veður þar efra í fyrra og hitteðfyrra og fyrrað þaráður; eða norðanmann hvernig hefði viðrað hjá þeim fyrir norðan magnleysisvorið mikla fyrir tuttugu árum, þegar sauðfé dó úr lurðu hér syðra. Um meðlæti og mótlæti hjá sauðkindum landsins var talað einsog vant er í samkvæmislífinu að tala um hag heldra fólks: af mærð og viðhöfn í fasi en kanski ekki alténd af djúpri tilfinníngu. Naumast það rýkur á Seltjarnarnesinu núna! kom svo; ætli þeir séu að bræða lýsi; eða sjóða háf; kanski hafi líka kviknað í grútnum hjá þeim. Hvaða þræslu leggur frá mosfellsprestum núna; varla sigin grásleppa, svo stórir menn; þeir hafa þó ekki náð sér í hval þessir anskotar. Þeir geingu aldrei beinir og aldrei bognir og ekki laust við þeir sigu ögn í hnjáliðum. Hundar þeirra voru að öllum jafni meinlausir og lágu á bæarhellunni með keitusvip og horfðu á gesti fara hjá. Það var ekki nema þegar Ólafur bóndi setti þá á fé prestsins, að þeir umhverfðust líkt og svín þau sem talað er um í heilagri ritníngu. Grófur tími fór í það hjá þessum mönnum að rölta við fé, voru þó taldir heldur lassar að gánga. Í smalamensku kom fyrir að þeir settust á mosaþúfu á miðri Mosfellsheiði og fóru að rífa grjótharðan þorskhaus, sem er einhver flóknust þraut á Íslandi svo aðeins fimm menn á landinu eru taldir kunna það núna; og svo seinlegt að menn eru orðnir svángir aftur um það bil staðið er upp frá borðum. Undur að svo lítt gánghnáir menn skyldu eyða ævinni til að reyna sig í þolhlaupi við stökkfráar sauðkindur. Þó það sé lyginni líkast höfðu þessir fótstirðu menn, ekki nema í meðallagi sjónskarpir og nokkuð brjóstþúngir, einlægt betur í kapphlaupinu við þessa eldfljótu skepnu, og það kom sig af því held ég, að þeir fóru ætíð svo hægt að sauðkindin misti áhuga á leiknum; sumpart einnig af því að þó sauðkindin sé þrá þá voru þessir menn sýnu þrárri. Þeir mistu aldrei þolinmæðina þó skepnan hlypi undan þeim í fjalli, upp snarbratta urð, sjónvitlaus af stygð. Aldrei töluðu þeir um að þetta væri erfitt, hugtakið erfiði var ekki til. Mætti bæta því við að vitrir höfundar telja þá hjátrú sprottna af getuleysi að til séu erfið verk; þau ein verk séu erfið sem unnin eru með rángri aðferð. Þó þeir sæu illa kom aldrei fyrir að kind kæmist undan þeim á fjalli; en öllu komu þeir til bygða án þess á þeim sæust þreytumerki ellegar þeir fyndu til mæði. Þeir kunnu ekki að flýta sér en þeir kunnu ekki heldur að vera of seinir. Úr því sláttur var hafinn mátti sjá hrísbrúínga í túni sínu á þeim tíma sólarhríngs sem ekki voru aðrir menn á ferli nema einn og einn mjólkurpóstur sem fór uppúr miðnóttinni á stað suður með brúsa sína í vagnkerru. Mér var aldrei ljóst hvort þeir voru heldur nýkomnir á fætur eða ekki farnir að hátta. Þeir sáust varla hreyfast, enda var túnið þýft og hentaði ekki sláttumönnum sem eru vanir að skára. Manni þótti einkennilegt að sjá þessa skeggjuðu menn að puða klukkan þrjú á nóttinni, næstum hreyfíngarlausa í grasinu, í kuðúng yfir orfinu, kanski sofandi. Málalyktir urðu þær að þúfnakarginn stóð eftir snoðrakaður og aldrei skorti hrísbrúínga hey. Enn minnist ég þess þegar þeir voru að deingja ljá útí túni uppúr miðnótt. Það verk er í því falið að þynna bláeggina á ljánum svo hann taki betur brýníngu; eggin er flött með klöppu á steðja. Steðjanum var stúngið ofaní þúfu og sat deingjarinn klofvega á þúfunni. Barsmíðin hafði nokkuð háan bjölluhljóm og barst vel í næturkyrðinni, heyrðist í fjarlæga staði. Þetta deingíngarhljóð vakti góðar undirtektir hjá nývöknuðum skógarfuglum sem slitu ánumaðk í ljáfari þessara manna meðan blautt var á. Þetta er sú músík sem menn muna þegar þeir eru tíræðir.