Gengið um Mosfellsdalinn – sögusvið Innansveitarkroniku

Dalurinn

Halldór Laxness (1902-1998) ólst upp að Laxnesi í Mosfellsdal. Í dalinn fluttist Halldór aftur árið 1945 er hann og seinni eiginkona hans, Auður Sveinsdóttir (1918-2012), byggðu Gljúfrastein en húsið er nærri æskuheimili hans. Dalurinn er sögusvið bæði Innansveitarkroniku (útg. 1970) og Í túninu heima (útg. 1975).

Í gulri úlpu og gönguskóm

Halldór var mikill útivistarmaður og fór daglega í gönguferðir enda umhverfið fagurt í Mosfellsdalnum. Gönguferðirnar voru honum uppspretta hugmynda. Auður Jónsdóttir, rithöfundur og barnabarn skáldsins lýsti því að afi hennar hafi klæðst sérstökum göngufötum: köflóttri skyrtu, flauelsbuxum, gulri úlpu og gönguskóm. Svo þrammaði hann út í holtið með staf og hund. Leið hans lá oft upp á Grímannsfell, upp með Köldukvísl sem rennur rétt við Gljúfrastein og að Helgufossi eða um holt og hæðir hinum megin við veginn, jafnvel upp að Móskarðshnjúkum. Oft áði hann við stein sem hann kallaði Álfastein og var í holtinu undir Esjunni í um hálfs kílómetra fjarlægð frá Gljúfrasteini. Þar gat hann setið með gott útsýni að Laxnesi og ef einhver var með honum í för sagði hann stundum frá fólkinu sínu.

Skáldaleiðin

Hér fyrir neðan má sjá göngukort um dalinn. Merkta leiðin er með appelsínugulum stikum og fræðslu- og upplýsingaskilti eru á leiðinni. Á vef Mosfellsbæjar er stærra göngukort með fleiri merktum gönguleiðum í Mosfellsbæ og ýmsum fróðleik um merka staði í bæjarfélaginu. Svokölluð „skáldaleið“ liggur frá Gljúfrasteini, framhjá Laxnesi og að Guddulaug, sem Halldór Laxness lýsir sem himneskum heilsubrunni. Frá Guddulaug liggur leiðin svo að Mosfellskirkju. Ekki langt frá Mosfellskirkju er Hrísbrú, þar sem unnið hefur verið að fornleifauppgreftri síðan 1995. Í hina áttina frá Gljúfrasteini er hægt að ganga upp meðfram Köldukvísl að Helgufossi og að eyðibýlinu Bringum.