ÞRIÐJI KAPÍTULI
Ekki einusinni eingilskjáta; traffík byrjar
Sá maður er nefndur til sögunnar er Ólafur hefur heitið Magnússon ættaður úr Gullhreppum. Hann bjó að Hrísbrú. Þess er áður getið að ekki væri nema skriða milli túna Mosfells og Hrísbrúr. Á Hrísbrú má heyra hundgá og hanagal prestsins sem og klukku Mosfellskirkju betur en á öðrum bæum, enda lét Ólafur bóndi á Hrísbrú ekki leingi bíða sín er klukka var hreyfð á Mosfelli. Þegar hann fór til kirkju fór hann ævinlega í sparifötin, stutta vaðmálstreyu nokkuð víða, kragalausa og hnepta í hálsmálið, með heimagerðum beintölum og í lokubuxum einsog Napóleon mikli. Hann hafði mjóan vángakraga einsog mun hafa tilheyrt gervi manna uppúr aldamótunum fyrri. Honum lá ekki vel orð til flestra manna, þó talinn óáreitinn, nema átti alla tíð í útistöðum við mosfellspresta útaf ágángi búpeníngs og öðrum ójafnaði sem hann taldi sig verða að þola af prestum þessum og þeir af honum. Hann lifði marga presta, og þó þeir væru menn hver öðrum ólíkir gerði hann aldrei mun á þeim, en talaði um einn og sérhvern þeirra einsog um flokk væri að ræða, og ævinlega með sama tignarheiti í fleirtölu: „þessir anskotar". Aldrei girti Ólafur á Hrísbrú tún sitt, en var þeim mun reiðubúnari með hund og hrossabrest, einkum við búpeníng prestsins. Ef Ólafur grilti eitthvað kvikt í skriðunni utan þjóðgötu, hélt hann að það væri presturinn að reka á sig fé, og var höndum uppi. Ókunnugar kindur sem vel kunnu að slæðast í hrísbrúartúnið beitti hann hundum og kom fyrir að þeir eltu heila hópana uppá fjall þar sem ekki var strá og hnöppuðu sig þar. Hestar fældust skellina í hrossabrestinum og stukku yfir alt hvað fyrir var en kýr hlupu stundum í keldur undan þessum látum. Stephensen prestur gerði einhverju sinni Ólafi bónda tiltal og skoraði á menn af prédikunarstóli að sýna af sér góðan grannskap og girða tún sín, því garður er granna sættir. Þegar menn geingu fyrir prest í kórdyrum að messu lokinni og þökkuðu fyrir orðið, þá segir Ólafur á Hrísbrú: „ekki stendur á ykkur anskotum að láta hrossin ykkar blóðnaga fyrir mér túnið, en hvur hefur heyrt að þið hafið nokkurntíma sýnt mönnum þó ekki væri nema eingilskjátu á rölti.“
Nú er lángt síðan lögð var niður þjóðgata að sunnan um Túngumela og Hrísbrúarsvöð. Þessi gata lá fyrir einn tíma að húsabaki á Mosfelli, um Hestbrekkur uppað Skeggjastöðum, og beygði þar niður með túngarðinum norður yfir Leirvogsá. Stundum var gist í Þverárkoti við þjóðbrautina undir Svínaskarði; haldið á Skarðið að morni og um þvera Kjós til Borgarfjarðar sem leið liggur norður í land.
Sjö sambygð bustarhús úr torfi sneru göflum frammá hlaðið á Hrísbrú, en aðeins inngaungubærinn hafði heilan timburgafl, „bæardyrnar“. Frammeð húsaröðinni var hlaðstétt úr hellugrjóti, reyndar nokkuð mjó, en hver sem stóð uppá stéttinni var hólpinn.
Fáir áttu leið um á Hrísbrú svo ekki stæði þar maður úti, einn eða fleiri. Oft stóð Ólafur bóndi sjálfur úti fyrir opnum skemmudyrum, stundum að prjóna sokk eða hann tálgaði brúnspón í hrífutinda með sjálfskeiðíngnum sínum og lét spænina í vasa sinn ellegar át þá.
Hverjir eru þar, spurði hann án þess að líta upp ef hann heyrði brölt í forinni sem lá uppað stéttinni.
Það eru strákar, svöruðu vegfarendur eftir landsið. Margur lét þó staðar numið í hlaðforinni og fór að rabba við karl. Synir hans bættust í hópinn, alskeggjaðir og óþekkjanlegir frá samtímamönnum sínum Karli Marx og Bakúnín. Þar var líka teingdafaðir í húsinu því hér voru dætur þó væru þær ósýnilegar. Teingdapabbi var merkur læknir sunnan með sjó og sagði stundum frá undraverðum taðkúrum og torfkúrum sem þeir stunduðu þar syðra, og komu þessi læknisráð einkum að haldi þegar háskólalærðir læknar, læknaskólapiltar og yfirsetukonur höfðu gefist upp. Þessi teingdafaðir var þó allra manna hreinastur og líktist í sjón þeim fræga presti og skáldmenni Grundtvig í Danmörku, með hvítt skegg sem óx undan hökunni og kjálkunum og náði niðrá bríngu, en sléttrakaður framaní og virðulegt hvítt hár á herðar niður. Ég nefni fræga menn sem höfðu andlit tímabilsins svo lesandinn geti flett upp á þeim hver í sinni Veraldarsögu og séð hvurnin andlit ég meina.
Hrísbrúíngar voru heldur þægilegir í viðmóti nema Ólafur karl þegar hann var að skattyrðast við prestinn, en höfðu aungva sérstaka laungun til að draga menn uppúr svaðinu fyrir utan stéttina og bjóða þeim til stofu. Þeir spurðu frétta af sauðfé hvaðanæva af landinu, því alt líf í landinu var einsog þann dag í dag miðað við sauðfé. Til dæmis þegar talað var um veður þá var það eitt sjónarmið ráðandi hversu það mætti henta sauðfé. Gott veður var það veður sem var gott fyrir sauðfé. Gott ár var það þegar óx gras handa sauðfé. Fallegt landslag á Íslandi þykir þar sem góð er beit handa sauðfé. Afkoma og sjónarmið manna í lífinu voru ákvörðuð af þessari skepnu. Hrísbrúíngar höfðu fréttir af sauðfé hvaðanæva af landinu og sögðu sögur af afkomu sauðfjár í Mosfellssveit. Þeir mundu nákvæmlega hvernig viðrað hafði fyrir sauðfé ár frammaf ári þrjátíu ár aftur í tímann. Þessir menn fóru aldrei í utanyfir sig, en ullartreyur þeirra og peysur héldu vatni og vindi einsog reifið á íslenskri sauðkind. Alt heimaunnið í sauðalitum, mest mórautt.
Lángferðamenn töldu Hrísbrúarsvöð eina mesta torfæru á leiðinni norður í land. Eflaust höfðu bæardyrnar verið reistar á keldu í fyrndinni, en keldan aldrei verið ræst burt, eftilvill sakir þess að helgur vættur hafði bygt kelduna fyrir öndverðu. Eftir að menn höfðu gert sér þarna bú fyrir þúsund árum hafði vatnsaginn undan hlaðstéttinni blandast við ýmis þau efni sem eru fylgifiskur manna og búpeníngs. Fjóshaugur sem hafði verið stofnaður í fyrndinni fyrir framan fjósdyrnar austast í húsaröðinni, hann hélt áfram að blanda fljótandi efnum sínum við afgánginn af hlaðforinni, án þess þar yrðu augljós skil á milli. Núna er forni bustabærinn gleymdur og í staðinn komin nútíma hús handa mönnum og skepnum ásamt kæliskáp mjaltavél og baðkari; vélknúin ökutæki standa á mölbornu bílstæði fyrir framan bæardyrnar; einginn hefur leingur heyrt getið um gamla svaðið; ekkert skegg á hlaðinu.
Talið var að einginn maður leysti hey úr garði af slíkri snild og Bogi á Hrísbrú. Á veturna var hann að dunda við að jafna stráin í heystálinu hjá sér mikinn hluta sólarhríngs. Hann gerði öll horn afslepp á stabbanum, svo hvergi varð brún. Oft leysti hann stabbann neðanfrá og uppeftir svo rekjur mynduðust ekki við jarðbotninn, og þegar á leið vetur var stálið hjá honum orðið í laginu einsog skál á valtri stétt, og seinast líkt staupi á fæti; en aldrei raskaðist burðarþolið í stabbanum. Iðulega var komið að Boga þar sem hann var að fulhnúa stálið einsog maður strýkur sér um kjammana til að finna hvort hann sé nógu vel rakaður. Margir komu í garðinn að berja þetta listaverk augum.
Bogi þessi var glaðbeittur við alla menn og áreitti aldrei mann eða skepnu svo vitað sé. Hann sá heldur illa, talinn hafa verksjón en ekki lestrarsjón, þekti menn oft ekki í sundur og talaði eins við alla menn, einkum átti hann bágt með að greina sundur únglínga. En við hvern sem hann ræddi fór hann aldrei útí þá sálma sem hann kunni ekki.
Andrés þótti fyrir þeim hrísbrúarfeðgum og svaraði með mestum skörúngsskap bæði þar á hlaðinu og annarstaðar, enda varð hann sem áður getur fyrstur innborinna mosdæla til að komast í hreppsnefnd í héraðinu. Hann átti meira að segja bækur og fékk fleiri bækur þegar hann varð sextugur. Hann tók oft fram ritið Menn og mentir eftir Pál Eggert Ólason, sem hann fékk í afmælisgjöf frá hreppnum, og lofaði mönnum að vega bókina í höndum sér og finna hvað hún var þúng. Margir öfunduðu hann af að vera í hreppsnefnd. Hann keypti sér skósíðan frakka til að hafa í hreppsnefndinni. Þegar hann hafði starfað nokkur ár í nefnd þessari sagði hann þó: hreppsnefndin er ekki nein skemtinefnd, allra síst eftir að bæði traffík og konkúrensi er farið að gera vart við sig í héraðinu.