FYRSTI KAPÍTULI Haus Egils Skallagrímssonar
Þegar þjóðhetja íslands og höfuðskáld Egill Skallagrímsson hafði um skeið bygt haug sinn í Mosfellsdal nær þjóðbraut þar sem heitir í Tjaldanesi af því ferðamenn tjalda þar, þá kom kristni í landið. Á þessum stað koma tvær ár saman og falla í einu lagi útúr dalnum milli hárra bakka. Voru nú bein skáldsins tekin upp og færð úr hauginum til kirkju þó skáldið hefði verið heiðinn maður. Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar. Það er til marks um mikilleik þessara beina að sá prestur er stóð fyrir ofangreindri beinaupptöku á 12tu öld, Skafti að nafni Þórarinsson, hann tók upp hausinn að því er segir í Egilssögu, og setti á kirkjugarðinn; var hausinn undarlega mikill. En hitt þótti þó meir frá líkindum hve þúngur var; hausinn var allur báróttur utan, svosem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins; tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom hvítnaði hann en ekki dalaði né sprakk, segir sagan orðagrant. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli og hefur einginn maður séð þau síðan; hafa forspáir menn sagt að þau muni eigi aftur finnast fyren á Iðavelli. Sé litið heim að Mosfelli núna væri ætlanda að kirkjan hefði staðið þar á hólnum og turninn borið við ský síðan í fornöld. Svo er þó eigi. Aftur og aftur hvarf kirkja þessi af hólnum. Æ ofaní æ var hún rækilega burt máð af blöðum sögunnar, numin úr lögum guðs og manna, ekki nefnd í skilríkjum, ekki vísa um hana til í munnmælum. Hafi nokkur kirkja nokkru sinni getað hrópað með nokkrum rétti guð minn hví hefur þú yfirgefið mig, þá er það Mosfellskirkja. Þegar kirkja var endurreist að Mosfelli í tíð okkar sem nú þreyum hér voru ekki liðin nema tæp 80 ár síðan kirkja hafði horfið af hólnum síðast; má vera að enn hafi þá einhver verið á lífi skírður í gömlu kirkjunni 1888 þó einginn gæfi sig fram. Í fyrra skiftið þegar kirkjan hvarf af hólnum liðu ein 250 ár uns aftur heyrðist gott orð á þessum stað. Á 13du öld stendur kirkjan enn með ummerkjum, segir í Egilssögu, en rúmlega hundrað árum síðar er hennar ekki leingur getið í máldögum. í Vilkinsmáldaga á ofanverðri 14du öld er þessi kirkja ekki leingur til. Eigi alllaungu síðar er Mosfell komið úr kirkjunnar eigu en jörðin talin í registri yfir jarðagóss ríkrar frúar vestanlands, Ólafar Björnsdóttur. Þegar kirkja er reist aftur í lútersku á 16du öld, hafa allir gleymt hver sá dýrlíngur var sem kirkjuna átti, enda búið að afnema dýrlínga. Og ekki eru einir saman dýrlíngar horfnir, heldur og sjálfur krossinn helgi; Vor Frú er týnd og tröllum sýnd ásamt hausnum á Agli Skallagrímssyni; og einginn í fyrirsvari utan danakonúngur og Lúter. Hér verður frá því sagt er kirkjan var tekin niður og henni jafnað við jörðu í þriðja sinn á ofanverðri 19du öld. Sýnt verður hvernig voldugir málafylgjumenn lögðust á eitt að brjóta niður kirkju þessa alt frá því danakonúngur skipaði að hún skyldi hverfa árið 1774; og leið þó stórt hundrað ára áður þeirri skipun varð framfylgt. Í næstum fjórar kynslóðir lögðu drjúgir aðiljar hönd á þennan plóg svo sem stjórnarvöld í Danmörku, Alþíngi Íslendínga æ ofaní æ, kirkjuyfirvöldin mann frammaf manni, svo biskupar og prófastar sem lægri safnaðaryfirvöld; loks innanhéraðsbændur og heiðarlegar húsfreyur og karlgildir menn sem áttu híngað kirkjusókn, uns ekki stóðu uppi til varnar kirkju þessari nema bóndi nokkur afgamall á Hrísbrú, Ólafur að nafni Magnússon og ein fátæk stúlkukind, vinnukona prestsins á Mosfelli, Guðrún að nafni Jónsdóttir. Þá féll að vísu þessi auma kirkja. Margir telja að Guðs visku og lánglundargeði hafi samt orðið nokkuð ágeingt í þessu máli hér í Mosfellsdal, þó í seinna lagi væri, og mætti heimsbygðin vel taka nótís af því, þó hinir hafi og nokkuð til síns máls er annað hyggja.