FJÓRÐI KAPÍTULI Sálin og körin
Því hefur verið haldið fram að á bæ þessum í þjóðgötu þar sem ekki var siður að bjóða gestum, en skeggjaðar hetjur stóðu vörð á hlaðhellunni og létu bæði laust og bundið við gest og gángandi, þar hefði þó verið ein sál á bak við flesta hluti. Þetta var kona Ólafs á Hrísbrú. Einginn þekti hana, vegfarendur höfðu aldrei séð hana, sumir drógu af líkum að slík kona væri ekki til. Innansveitarmenn höfðu þó margir séð hana fyr á árum þegar hún gekk um hús sín, stilt í orðfæri en tók á öllu af röggsemi, samt með nokkrum hætti gestur heimahjá sjálfri sér, enda ættuð að norðan; þjóðskáldið á Bæsá sem þýddi Milton og Klopstock ku hafa verið ömmubróðir hennar. Hvernig barst hún að norðan og giftist Ólafi á Hrísbrú? Um það fara ekki sögur. Einstöku maður mundi svo lángt að hafa séð konu þessa fægja gljáþjöppuð moldargólfin á Hrísbrú með álftarvæng fyrir jól. Kanski hafði vilpan í bæardyrunum sem einginn vissi hennar dýpt ásamt foraðinu fyrir framan hlaðstéttirnar orðið henni ofjarl. Dag nokkurn um það bil sem börn hennar voru vel komin á legg lagðist hún í kör og reis ekki upp síðan; en kör hefur verið ein mikilsverðust þjóðfélagsstofnun á Íslandi frá því land bygðist. Það var sagt að konan væri búin að liggja átján ár í körinni. Til höfða í rúmi sínu var hún sögð geyma sokkbol þann sem hafði inni að halda sjóð hússins og í þunnri en nokkuð hárri skrínu varðveitti hún það sykurpund sem verður að vera á hverjum bæ. Skeggkarlarnir börn hennar voru sagðir tala við hana í hálfum hljóðum. Hún hét Finnbjörg og er í manntölum og fornum skilríkjum oft skrifuð Fimmbjörg; bóndi hennar ku og hafa ávarpað hana svo; einn aðkominn dreingur hér í sveitinni hélt að hún héti 5 björg. Rúm hennar var í stafgólfi næst bastofugaflinum þar sem glugginn var. Ólafur karl bjó með sonum sínum í miðstafgólfinu, þaðan voru dyrnar frammí moldargaung laung og dimm; talaði við hana af rúmi sínu og var nú farinn að verða ögn rámur. Þó hann væri talinn hlaðkaldur var hann sagður ekki bastofukaldur. Iðulega mátti heyra hann mæla við konuna framanúr bæardyrum, barst þá rödd hans innum moldargaungin; ellegar utanaf hlaði og smó röddin gegnum rúðuna; stundum ofanaf þekjunni þar sem hann var að dytta að torfum eða smyrja með mykju eða gá að þeim anskotum mosfellsprestum sem honum sýndust einlægt vera að reka á sig fé. Ekki vissu menn gjörla hvort konan heyrði nokkru sinni til bónda síns, því aldrei heyrðist svar.