ANNAR KAPÍTULI Ljótt land, framþróun ókunn
Hóllinn sunnanundir Mosfelli þar sem kirkjan stendur sánkar að sér meira sólskini en aðrir hólar. Jafnvel um vetrarsólstöður er oft sólskinsblettur á hólnum. Partabæirnir sem svo hétu, öndvert Mosfelli hinumegin í dalnum, hafa skugga af þeim fellum sem þeir standa norðanundir. Þeir sem búa sunnanundir fjalli eru venjulega nokkuð spælnir. En hinir spældir sem kallað er á mosfellsveitarmáli, þar sem ekki sér sól tíu og uppí átján vikur á ári. Í svona skugga lágu Partabæirnir þrír og þar hafa nútímamenn reist heilsuhæli handa munaðarlausum börnum og þjökuðum barnakonum. Þó dimt hafi verið á Partabæum þar sem jafnan bjuggu fátækastir menn dalsins, lágu þeir á jarðhitasvæði og er hiti partabæahveranna nú talinn í tölum sem minna á reikníng ljósára í geimnum. Í þann tíð vantaði fólk hér í dalnum flesta þá hluti sem nú eru taldir til mannlífis, nema hundraðþúsundmiljón tonn af sjóðheitu vatni. Í hundrað þúsund ár rann vatn þetta, dýrmætara en allar kolanámur, í stríðum straumum út til sjávar. í þessum ógurlega hitagjafa átti Mosfellskirkja ítök og lét maddaman á Mosfelli seyða þar brauð í heitum sandinum. Rekugrey lasið stóð í sandinum öld frammaf öld haft til að grafa deigið niður hrátt og síðan upp aftur fullseytt brauð. Í logni stigu gufur uppaf hverunum og lögðust í mynd dalalæðu yfir Kirkjumó, sem svo hét mýrlend flatneskja dalbotnsins (Víðir núna). Af Mosfellshólnum hefur mátt sjá ljósum fjölga í Reykjavík frá því fáeinir veslíngar einokunarinnar dönsku sátu þar við grútartýru á 18du öld, þángaðtil höfuðborg Íslands skín nú þar út við sund með meiri ljósadýrð á nef en tíðkast í öðrum höfuðborgum. Þessi glæsta borg er nú hituð upp með hveravatninu kotkarlanna á Partabæunum og hefur nú meira baðvatn á nef en nokkur önnur borg í heiminum að undantekinni höfuðborginni á Kamsjötku. Austan Mosfellsdals hefjast óbygðir og á kirkjan þángað heiðalönd auðnir og fjöll, áföst öræfum landsins. Sé frá Mosfelli farið beint í austur sést ekki til bæa fyren á Seyðisfirði. Ugglaust hefur dropið smjör og hunáng af hverju strái handa vættum í dal þessum, einsog öðrum dölum Íslands áður menn komu í landið. Kornrækt var stunduð um aldaraðir hér í dalnum. Bóndanum í Laxnesi fyrir botni dalsins miðjum, var á fjórtándu öld gert að leggja fram tvær tunnur öls og reiða til Þíngvalla handa hirðstjóranum á Bessastöðum að drekka á Alþíngi. Þegar gróðri hafði verið eytt öldum saman, og ekki neitt látið vaxa í staðinn, lagðist ölgerð niður í Laxnesi á fimtándu öld og var þeirri stefnu haldið áfram þángað til í tíð þeirra manna sem nú lifa, að túnið var gert að torfpælu og grassvörður af því seldur til Reykjavíkur. Í lok miðalda þegar búið var að naga landið oní rót og spilla því með öllum tiltækum hernaðaraðgerðum einsog nú er gert í Víetnam, og heilar sveitir voru orðnar örfoka, fóru menn að lifa einsog Róbinson Krúsó á nýaleik. Þeir létu sér nægja að róa út og draga „þessa andskotans fjóra“ í staðinn fyrir að rækta korn og hita öl. Þannig létu þeir dumma aldirnar í gegn og gleymdu meira að segja að baða sig í sjö hundruð ár þó þeir hefðu meira heitt vatn en nokkur þjóð á jörðinni. Eingin leið lá í raun réttri fram og eingin aftur í svona dal. Framþróunarkenníngin var ekki fædd og takmarkið var að standa í stað, í hæsta lagi líkjast öfum sínum. Presturinn á Mosfelli var sjálfgerður höfðíngi dalsins hvort mönnum líkaði við hann betur eða ver, að sumu leyti utanstæður við mannlegt félag, launaður af yfirvöldunum. Mönnum var innborið að líta upp til bókvits síðan í fyrndinni að þjóðin var rík og samdi bækur; einhvernveginn lærðu samt flestir að lesa þó þjóðarmórallinn væri nú orðinn bókviti fjandsamlegur og jafnvel hætt að messa á latínu í Mosfellskirkju. Nú var latína, þó presturinn væri sagður kunna hana, orðin einsog galdur sem hefur mist máttinn. Þá var enn ekki búið að finna upp hugsjónir; slíkt orð var ekki til. Náttúrufegurð var ekki heldur til; einginn hefði skilið orðið þó til hefði verið, sem það reyndar ekki var. Það voru þær aldir þegar menn trúðu því að Búlandstindur væri ljótur og að andstyggilegur staður einsog Mývatn hefði orðið til af því fjandinn mé á móti sólinni, en draugar voru sendir í Gullfoss. Aldrei datt nokkrum manni í Mosfellsdal í hug að hafa forustu fyrir öðrum um neitt, hvort heldur til ills eða góðs. Einginn maður borinn og barnfæddur í þessum dal komst í sveitarstjórn fyren Andrés á Hrísbrú í minni þeirra sem nú lifa. Bæirnir voru úr torfi nema einstöku hafði gestastofu kalda þar sem gestir voru látnir sitja þángaðtil sló að þeim. Alstaðar var sofið í bastofu, oft á bálkum. Segja mátti að þessir menn væru ánægðir með einföld klæði og bragðaðist óbrotin fæða sín; og þó þeir heyrðu hanagal og hundgá úr öðrum sveitum lángaði þá ekki þángað, einsog stendur í taó. Höfuðstaðurinn var kallaður „fyrir sunnan“ og að fara þángað hét að fara suður, þó liggur höfuðstaðurinn nokkurnegin í vestur úr sveit þessari. Þjóðgata lá til skamms tíma norðanmegin í dalnum áleiðis til Borgarfjarðar og síðan norður í land. Þar fóru lestamenn vor og haust, sumir úr fjarlægum sýslum þar sem menn eiga stórbú og penínga og fara suður og kaupa vöru útí hönd við hagstæðu verði uppá marga hesta. Þessum lestaferðum fylgdi andblær af öðrum himintúnglum. Og lestir úr fjarlægum sveitum halda áfram að tosast gegnum dalinn. Stundum sátu mosdælir á hlaðhellum sínum á sumrin og voru að gera að reipum og tóku ofan fyrir lángferðamönnum. Einusinni reið Jónas Hallgrímsson hjá. Hann orti svo: Bóndinn situr á bæarstétt, bindur hann reipi, hnýtir hann hnúta. Heyið er upp í sæti sett, konan ætlar að kaupa sér fyrir það klúta. Að vísu munu flestar konur í Mosfellsdal hafa átt einn silkiklút; silkiklút átti að minstakosti sú kona þar í sveit sem mig grunaði síst og verður síðar getið. Enda segja gamlir sveitúngar að hitt muni hafa verið ekki óþekt hér um pláss að þegar bændur höfðu heyað uppá einn kapal hafi þeir átt til að fara með heyið suður og selja fyrir brennivín. Að kvöldi lögðu þeir á stað að sunnan aftur tvívega ofaná reiðíngnum með pytluna á lofti. Stundum rigndi; þeir duttu af baki í Kortúlstaðá; að minstakosti vöknuðu þeir oft að morni í grænni laut þar hjá vaðinu á ánni. Þegar þeir vöknuðu voru þeir dálítið þurir í kverkunum og flaskan tóm, en hesturinn týndur, stundum einnig hundurinn. Þeir feingu sér að drekka úr Kortúlstaðá og fóru gángandi heimí dalinn; hesturinn og hundurinn og konan tóku á móti þeim í hlaðvarpanum; en aldrei komust þeir svo lángt fyren í minni tíð, að selja grassvörðinn af túnum sínum. Af klútnum handa konunni fara ekki sögur.